Íslensku strákarnir í U-19 ára landsliðinu unnu dramatískan sigur á bronsliði síðasta Evrópumeistaramóts, Þjóðverjum á heimsmeistaramótinu í Georgíu í dag. Lokastaðan var 28-27 eftir að staðan hafði verið jöfn 12-12 í hálfleik.
Íslensku strákarnir byrjuðu leikinn af miklum krafti og komust m.a. í 5-1 en gott lið Þjóðverja minnkaði muninn jafnt og þétt og náðu að jafna fyrir lok fyrri hálfleiks. Í seinni hálfleik var íslenska liðið mjög vel skipulagt og yfirvegað í öllum sínum aðgerðum. Þeir náðu þriggja marka forskoti undir lok leiksins en ódýrar brottvísanir urðu til þess að Þjóðverjar náðu að jafna þegar 15 sekúndur voru eftir. Þá tók Bjarni Fritzsson þjálfari liðsins leikhlé og setti upp í frábæra leikfléttu sem endaði með því að Orri Freyr Þorkelsson skoraði úr vinstra horninu á síðustu sekúndu leiksins.
Íslenska liðið vann því alla sína leiki í riðlinum og er komið í 16 liða úrslit. Nú taka við 16 liða úrslit en fjögur efstu liðin í hverjum riðli tryggja sér sæti þar og strákarnir mæta því lið sem lendir í 4. sæti A-riðils. Mögulegir andstæðingar geta verið Svíar, Norðmenn eða Barhein. Það skýrist seinna í dag.
Teitur Örn Einarsson var valinn maður leiksins hann gerði 10 mörk og er nú langmarkahæsti leikmaður mótsins eftir riðlakeppnina með 46 mörk í fimm leikjum.
Mörk Íslands:
Teitur Örn Einarsson 10, Bjarni Ófeigur Valdimarsson 5, Orri Freyr Þorkelsson 3, Örn Östenberg 3, Sveinn Andri Sveinsson 3, Hannes Grimm 2, Birgir Már Birgisson 1 og Úlfur Kjartansson 1.
Andri Scheving varði 23 skot í markinu og Viktor Gísli Hallgrímsson varði 2.