Samskip hafa endurnýjað styrktarsamning sinn við Handknattleikssamband Íslands til tveggja ára en fyrirtækið hefur verið eitt af aðal styrktarfyrirtækjum HSÍ frá árinu 1998. Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa og Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, skrifuðu undir samninginn í hálfleik vináttulandsleiks Íslands og Þýskalands sem fram fór í dag, sunnudaginn 4. janúar.
Pálmar Óli Magnússon, forstjóri Samskipa sagðist við undirritunina vera afar stoltur af stuðningi Samskipa við handboltalandsliðin síðustu ár „og taka um leið þátt í gleði og sorgum liðanna á vellinum. Um þessar mundir standa bæði kvenna- og karlaliðin í stórræðum. Karlaliðið hefur keppni á heimsmeistaramótinu í Qatar síðar í þessum mánuði og kvennaliðsins bíða erfiðir leikir í forkeppni fyrir heimsmeistaramót kvenna sem haldið verður í Danmörku í desember. Framundan er því skemmtilegt og spennandi handboltaár.“
Við undirritun styrktarsamningsins þakkaði Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ, Samskipum fyrir ómetanlegan stuðning fyrirtækisins við handknattleikshreyfinguna síðustu árin. „Það er ómetanlegt fyrir íþróttina að eiga trausta bandamenn sem leggja sitt til uppbyggingar á íþróttinni til langs tíma. Og nú er sannarlega þörf að góðum styrk því átakaleikir eru framundan bæði hjá karla- og kvennaliðunum okkar. Því þökkum við Samskipum stuðninginn frá árinu 1998.“