Róbert Aron Hostert úr ÍBV og Florentina Stanciu úr Stjörnunni voru í gærkvöldi útnefnd bestu leikmenn Olís-deilda karla og kvenna í handknattleik á lokahófi Handknattleikssambands Íslands í Gullhömrum.
Róbert var lykilmaður í Íslandsmeistaraliði ÍBV í karlaflokki og Florentina var í stóru hlutverki í markinu hjá Stjörnunni sem varð deildarmeistari en tapaði fyrir Val í oddaleik í úrslitum Íslandsmótsins í dag.
Róbert og Florentina fengu jafnframt Valdimarsbikarinn og Sigríðarbikarinn sem jafnan eru afhentir ár hvert.
Stefán Darri Þórsson úr Fram og Thea Imani Sturludóttir úr Fylki voru kjörin efnilegustu leikmennirnir.
Örn Ingi Bjarkason úr Aftureldingu var kjörinn besti leikmaður 1. deildar karla og Ómar Ingi Magnússon úr Selfossi sá efnilegasti.
Patrekur Jóhannesson úr Haukum var valinn þjálfari ársins í Olís-deild karla, Stefán Arnarson úr Val í Olís-deild kvenna og Gunnar Gunnarsson á Selfossi í 1. deild karla.
Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson voru valdir besta dómaraparið.
Bestu markverðir deildanna þriggja voru valin Stephen Nielsen úr Fram, Íris Björk Símonardóttir úr Gróttu og Davíð Svansson úr Aftureldingu.
Bestu sóknarmenn voru valin Róbert Aron Hostert úr ÍBV, Vera Lopes úr ÍBV og Örn Ingi Bjarkason úr Aftureldingu.
Bestu varnarmenn voru valin Jón Þorbjörn Jóhannesson úr Haukum, Anna Úrsúla Guðmundsdóttir úr Val og Vilhjálmur Halldórsson úr Stjörnunni.
Markakóngar voru heiðraðir en það voru Sturla Ásgeirsson úr ÍR með 136 mörk í Olís-deild karla, Vera Lopes úr ÍBV með 185 mörk í Olís-deild kvenna og Haraldur Þorvarðarson úr KR með 140 mörk í 1. deild karla.
Fjölnir fékk unglingabikar HSÍ og háttvísiverðlaun Handknattleiksdómarasambands Íslands fengu Sturla Ásgeirsson úr ÍR og Íris Björk Símonardóttir úr Gróttu.
Tekið af mbl.is.