ÍBV og Fram áttust við á sunnudaginn í fyrsta leik 13.umferðar Olís deildar kvenna. Þar hafði Fram betur og situr á toppi deildarinnar með 19 stig.

 

Umferðin klárast í kvöld með þremur leikjum og geta Valskonur komist aftur á toppinn með sigri.

 

Leikir kvöldsins eru sem hér segir:

 

Haukar og Selfoss mætast í Schenkerhöllinni kl.19:30. Leikurinn er í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport. Selfoss átti góðan leik gegn Val síðast og er í harðri baráttu í neðri hluta deildarinnar meðan að Haukar geta komist í þriðja sætið með sigri.

 

Valur og Stjarnan etja kappi í Origohöllinni kl.19:30. Stjarnan hefur verið að sækja í sig veðrið og þarf nauðsynlega á sigri að halda ætli liðið sér í úrslitakeppnina. Valur sem leikið hefur vel getur sem áður segir komist aftur á toppinn með sigri og má reikna með hörkuleik.

 

Á Akureyri leiða saman hesta sína nýliðar deildarinnar, KA/Þór og HK. Þar verður án efa hörkuleikur enda um afar mikilvæg stig að ræða í slagnum í neðri hlutanum.

 

Við hvetjum stuðningsmenn að fjölmenna á völlinn í kvöld en bendum jafnframt á að félögin senda leikina beint á félagsrásum sínum.