Sunnudaginn 5. maí fara fram úrslitaleikir yngri flokka í Kaplakrika í Hafnarfirði. Þar mætast landsliðsmenn framtíðarinnar og má reikna frábærri skemmtun frá morgni til kvölds.

FH mun sjá um mótahald í ár og verður hvergi slegið slöku við.

Leikjaplan dagsins:



10:00     Haukar – ÍBV  4.fl. kvenna yngri     

12:00     Fram – ÍR   4.fl. karla yngri     

14:00     Grótta – ÍBV   4.fl. kvenna eldri     

16:00     Valur – Fjölnir/Fylkir  3.fl. karla     

18:00     Fram – Valur  3.fl. kvenna     

20:00     Valur – Selfoss 4.fl. karla eldri  

Allir leikirnir verða sýndir í beinni útsendinu inná „FH handbolti í beinni“ á youtube. Hlekkur á streymið verður auglýstur á Facebook síðu HSÍ á leikdegi.

  

Fyrsta viðureign dagsins er á milli Hauka og ÍBV í 4. flokki kvenna yngra ár,  þessi tvö lið enduðu í fyrsta og öðru sæti í deildinni í vetur þar sem Haukar urðu deildarmeistarar. Liðin unnu sitthvorn leikinn innbyrðis í deildinni  og Haukar unnu með einu marki í bikarúrslitum og má því búast við spennandi leik á sunnudagsmorgni.

Annar leikur dagsins er viðureign Fram og ÍR í 4 flokki karla yngra ár. Þessi tvö lið hafa verið þau bestu í vetur í sinni deild og enduðu í fyrsta og öðru sæti þar sem Fram varð deildarmeistari. Fram hefur haft betur í báðum leikjum liðana í deildinni og einnig báru sigur úr býtum í bikarúrslitum. Það verður fróðlegt að sjá hvort það haldi áfram eða að ÍR-ingar nái að knýja fram sigur.

Grótta og ÍBV mætast í fjórða flokki kvenna eldri. Grótta endaði í öðru sæti í deildinni og ÍBV í því fjórða. Gróttustelpur urðu bikarmeistarar eftir að hafa slegið ÍBV úr keppni í hörkuleik í undanúrslitum. Grótta vann hinsvegar báða leikina í deildinni sannfærandi. Mun Grótta vinna fjórða leik liðanna í vetur eða nær ÍBV að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn?

Á sunnudagskvöldi eigast við Valur og Selfoss í 4. flokki karla eldra ár. Valur hefur ekki tapað leik í vetur og unnu alla 12 leikina í deildinni ásamt því að verða bikarmeistarar á meðan Selfoss endaði í öðru sæti í deildinni. Leikir liðana í vetur hafa verið jafnir en alltaf endað með sigri Valsmanna. Selfyssingar eiga því verðugt verkefni fyrir höndum að reyna stöðva sigurgöngu Valsara. 

Í 3. flokki kvenna eigast við Fram og Valur. Framstelpur urðu bæði deildar- og bikarmeistarar í vetur, Valsstelpur enduðu í öðru sæti í deildinni þremur stigum á eftir Fram. Fram vann báða innbyrðisleiki liðanna í vetur í hörkuleikjum. Margar af stelpunum hafa verið að spila með meistaraflokkum félagana og yngri landsliðum Íslands. Ná Framarar að vinna þrennuna eða munu Valsarar hafa betur.

Kl. 16:00 eigast við Fjölnir/Fylkir og Valur. Þessi tvö lið hafa barist um titla síðust ár í öllum yngri flokkum. Í vetur hafa félögin unnið sitthvorn bikarinn, Valur varð deildarmeistari og Fjölnir/Fylkir bikarmeistari. Valsmenn hafa unnið báða leiki liðana í vetur í deildinni. Margir yngri landsliðsmenn í báðum liðum og margir sem spila stórt hlutverk í meistaraflokkum félagana. Þessi tvö lið hafa mæst oft áður í spennandi úrslitaleikjum og má búast við því að þar verði engin breyting á.

Verðlaunaafhending fyrir hvern flokk fer fram strax að leik loknum. Veitt eru verðlaun fyrir besta leikmann leiksins, auk silfur og gullverðlauna. Sigurliðið fær afhentan bikar til eignar. 

Við hvetjum alla áhugamenn um handbolta til að leggja leið sína í Kaplakrika á sunnudaginn og sjá allt þetta frábæra íþróttafólk sem þar etur kappi.