Kveðja frá HSÍ

Í dag kveðjum við Gunnar K. Gunnarsson góðan félaga sem lagði mikið af mörkum til handboltaíþróttarinnar. Íþróttastarf er byggt upp af fólki sem hefur í sjálfboðavinnu lagt sinn metnað sinn og framlag til íþrótta.  Gunnar var einn af þessum burðarásum sem handknattleikshreyfingin naut góðs af. Ferill Gunnars í þágu handboltans var ótrúlega fjölbreyttur, hann lagði víða hönd á plóg án þess að vekja sérstaka athygli á því. Hann lagði sitt af mörkum í öllum þáttum handboltans. Hann var leikmaður með Þrótti, stjórnarmaður, dómari, eftirlitsmaður á leikjum bæði hér á landi og á vegum Evrópska og Alþjóða handknattleikssambandsins, stjórnarmaður í HSI, formaður aganefndar, þingforseti, og fleira mætti telja. Alltaf tók hann  þessi verkefni að sér léttur í lund  og leysti með sóma.  Aldrei neitaði hann ósk um aðstoð heldur gekk í verkefnin sem þurfti að vinna og þótti öllum gott að vinna með honum.  Slíkur eiginleiki er hverju íþróttasambandi ómetanlegur. HSÍ er stolt að hafa haft Gunnar í sínu liði og hans verður minnst fyrir ómetanlegt framlag  til handboltans.

Við sendum samúðarkveðjur til fjölskyldunnar í minningu um góðan mann.