Íslenska kvennalandsliðið í handknattleik fagnaði í dag fjögurra marka sigri gegn Sviss, 28-24, í þriðja og síðasta leiknum sem leikinn verður í æfingaferðinni til Sviss. Staðan í hálfleik var 15-10 Íslandi í vil.
Karen Knútsdóttir, Ramune Pekarskyte og Þórey Rósa Stefánsdóttir voru markahæstar í liði Íslands í dag með 6 mörk hver. Rut Arnfjörð Jónsdóttir skoraði 4 mörk, Birna Berg Haraldsdóttir og Arna Sif Pálsdóttir skoruðu 2 mörk hvor og Hildigunnur Einarsdóttir og Sunna Jónsdóttir skoruðu sitt markið hvor.
Þetta var eins og áður segir þriðji og síðasti leikur þjóðanna í þessari æfingaferð íslenska landsliðsins; Ísland vann tvo leiki, báða með fjögurra marka mun, og Sviss fagnaði sigri í einum leik.