Ísland er komið í 16-liða úrslit á HM í Katar og mætir þar Dönum. Ísland vann Egyptaland 28:25 í lokaumferð C-riðils heimsmeistaramóts karla í handknattleik í Doha í Katar klukkan 16.00. Ísland hafnar í 3. sæti riðilsins á eftir Frökkum og Svíum. Egyptaland er í 4. sæti og Tékkar sitja eftir.
Ísland er með 50% árangur í riðlakeppninni, vann tvo leiki, gerði eitt jafntefli og tapaði tveimur. Töpin voru hins vegar mjög slæm og lita árangurinn töluvert. Nú byrja öll liðin upp á nýtt og útsláttarkeppni tekur við.
Fyrirliðinn Guðjón Valur Sigurðsson fór fyrir liðinu í dag og skoraði 13 mörk í 15 skotum að ég held. Hann sagði eftir tapleikinn gegn Tékkum eitthvað á þá leið að landsliðsmennirnir myndu bara skipta um kennitölu fyrir leikinn gegn Egyptum eins og Íslendingum sæmir og byrja upp á nýtt. Hvort sem Fyrirtækjaskrá ríkisskattsstjóra náði að taka erindið fyrir í tæka tíð eða ekki þá var Guðjón alla vega í miklum ham og spilaði frábærlega. Hans langbesti leikur til þessa í Katar.
Björgvin Páll Gústavsson stóð sig mjög vel í markinu og varði til að mynda 3 vítaköst og munar um minna. Alls varði hann 14 skot. Þá var Ásgeir Örn Hallgrímsson drjúgur og skoraði fimm mörk, þar af fjögur í fyrri hálfleik þegar íslenska liðið vann sig inn í leikinn.
Íslenska liðið byrjaði nefnilega ekki vel í leiknum og var það í fjórða skiptið í fimm leikjum í keppninni sem liðið byrjar illa á upphafsmínútunum. Ísland lenti 1:4 undir en sneri dæminu við og var yfir 15:10 að loknum fyrri hálfleik. Ísland náði mest sex marka forskoti í síðari hálfleik en þá söxuðu Egyptar forskotið niður í aðeins eitt mark en lengra komust þeir ekki.
Gunnar Steinn Jónsson kom inn í leikmannahópinn fyrir Aron Pálmarsson og var ferskur. Gunnar skoraði 3 mörk og var áræðinn gegn 3-2-1-vörn Egypta. Hans fyrsti leikur á HM í Katar.
Tekið af mbl.is.