Í síðustu viku undirrituðu Opin Kerfi og HSÍ með sér samstarfssamning og kemur Opin Kerfi inn í ört stækkandi hóp bakhjarla HSÍ.

Opin Kerfi er leiðandi fyrirtæki í upplýsingatækni á Íslandi. Fyrirtækið sérhæfir sig í ráðgjöf á sviði upplýsingatækni og innleiðingu rekstrar-, skýja og hýsingarlausna ásamt sölu á tölvu- og samskiptabúnaði. Opin Kerfi verða sýnileg með vörumerki sitt á baki keppnistreyja landsliða HSÍ.

Stór verkefni eru framundan hjá HSÍ á næsta ári. A landslið karla heldur á HM í Þýskalandi og Danmörku í janúar, A landslið kvenna spilar í maí og júní umspilsleiki fyrir HM2019 sem haldið verður í Japan. U21 landslið karla hefur tryggt sér þáttöku rétt á HM á Spáni í júlí og í ágúst heldur U19 karla til Makedóníu í ágúst til þáttöku á HM. U17 karla hefur tryggt sér þáttökurétt á Opna Evrópumótinu í Gautaborg og Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Bakú og U19 og U17 kvenna taka þátt í B-deildum EM í Búlgaríu og Ítalíu.

“Stuðningur frá íslensku atvinnulífi er sambandinu ómetanlegur nú sem áður. Báðir aðilar lýsa yfir ánægju sinni með þennan samning og vonast til þess að eiga gott samstarf  í framtíðinni,” segir Davíð B. Gíslason, varaformaður HSÍ.

“Okkur hjá Opnum Kerfum þykir mikið til þess koma að vera komin í hóp sterkra bakhjarla íslensku handboltalandsliðana og hlökkum mikið til samstarfsins. Við vitum að þegar kemur að starfi sambandsins er uppbygging markviss, mikill metnaður og vilji til að ná árangri. Við það viljum við styðja – Áfram Ísland!” segir Sigurgísli Melberg, framkvæmdastjóri hjá Opnum Kerfum


Frá undirskrift samningsins, Davíð B. Gíslason, varaformaður HSÍ og Sigurgísli Melberg, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs Opinna Kerfa.



Á mynd frá vinstri, Sigurgísli Melberg frkvstj. hjá OK, Róbert Geir Gíslason, frkvstj. HSÍ, Ólafur Borgþórsson, markaðsstj. OK, Davíð B. Gíslason, varaform. HSÍ og Reynir Stefánsson, forstöðum. hjá OK