Heilbrigðisráðuneytið í samvinnu við mennta- og menningarmálaráðuneytið tekið saman leiðbeinandi viðmið um hvernig beri að túlka auglýsingar um takmörkun á samkomum vegna farsóttar og takmörkun á skólastarfi vegna farsóttar þegar kemur að íþrótta og æskulýðsstarfi barna, ungmenna og fullorðinna.
Leiðbeiningarnar eru eftirfarandi:
Kennsla í leik- og grunnskólum fer nú fram í litlum hópum og leitast er við að ekki verði blöndum milli þessara hópa til að hægja eins og unnt er á útbreiðslu COVID-19 sjúkdómsins. Samkvæmt auglýsingu um takmörkun á skólastarfi gilda sömu reglur um íþrótta- og æskulýðsstarf barna en ljóst er að ekki er unnt að halda þar sömu hópaskiptingu og í skólum og því óhjákvæmilegt að nemendur munu blandast í íþrótta- og æskulýðsstarfsemi sem stefnt gæti markmiðum sóttvarnarráðstafananna í tvísýnu.
Samkvæmt auglýsingu um takmörkun á skólastarfi gildir um íþrótta- og æskulýðsstarf ungmenna á framhaldsskólaaldri almennt sama regla og um framhaldsskóla, þ.e. að það fer ekki fram nema með fjarkennslu ef unnt er. Um skipulagt íþróttastarf fullorðinna gildir auglýsing um takmörkun á samkomum þannig að heimilt hefur verið að halda því áfram að því marki að ekki séu fleiri en 100 þar samankomnir og að almennt sé unnt að hafa um 2 metra á milli einstaklinga. Ljóst er þó að ekki er unnt að halda þeirri fjarlægð á milli einstaklinga í fjölda íþróttagreina.
Með ákvörðun heilbrigðisráðherra um takmörkun á skólastarfi og samkomum var fyrst og fremst komið á tilteknum viðmiðum í þágu opinberra sóttvarna en nánari útfærsla falin menntamálayfirvöldum í tilviki skólastarfs eða viðkomandi rekstraraðilum eða skipuleggjendum í tilviki takmarkana á samkomur. Eftir samráð Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands (ÍSÍ) og mennta- og menningarmálaráðuneytisins síðastliðna viku hefur komið í ljós að framkvæmd þessara ráðstafana hefur reynst flókin.
Af þeim sökum og að virtum þeim sjónarmiðum og skýringum sem fram hafa komið af hálfu ÍSÍ og ýmissa annarra samtaka sem sinna íþrótta- og æskulýðsstarfi mælast heilbrigðisráðuneytið og mennta- og menningarmálaráðuneyti til þess að hlé verði gert á öllu íþrótta- og æskulýðsstarfi barna og ungmenna, sem felur í sér blöndun hópa, nálægð við aðra og snertingu, þar til takmörkun skólastarfs lýkur. Eru skipuleggjendur þess hvattir til að halda uppi félagsstarfi með því að nýta sér tæknina til að halda utan um sína hópa og vera í sambandi við iðkendur og hvetja þá til virkni og hreyfingar eftir því sem við á.
Enn fremur er þeim tilmælum beint til ábyrgðaraðila og skipuleggjenda annars íþrótta- og æskulýðsstarfs að með sama hætti verði gert hlé á starfi sem felur í sér snertingu eða nálægð milli iðkenda sem er minni en 2 metrar, í samræmi við þær meginreglur sem fram koma í auglýsingu um takmörkun á samkomum og á meðan þær takmarkanir eru í gildi.
Yfirvöld benda á heimasíðuna COVID.is, þar sem finna má svör við ýmsum spurningum um m.a. skólahald og viðburði.