Handknattleikssamband Íslands (HSÍ) hefur hlotið viðbótarstyrkveitingu úr Afrekssjóði ÍSÍ vegna landsliðsverkefna ársins 2017. Um er að ræða styrk að upphæð 13 m.kr. sem bætist við fyrri úthlutun til sambandsins, en sambandið hlaut styrk að upphæð 28,5 m.kr í fyrri úthlutun ársins úr Afrekssjóði ÍSÍ.
HSÍ heldur úti 9 landsliðum og ber þar hæst A landslið karla og kvenna. Bæði lið eru að ganga í gegnum mikil kynslóðarskipti nú um stundir og kallar það á mikla vinnu og þolinmæði. Þau eiga það sameiginlegt að hafa á að skipa reynslumiklum leikmönnum sem eru að taka á móti ungu en virkilega efnilegu og spennandi afreksíþróttafólki.
Markmið liðanna er það sama, að vera landi og þjóð til sóma og að keppa í fremstu röð á stórmótum ár hvert. Það hefur til að mynda karlaliðið gert nær óslitið síðan árið 1999 (að undanskildu árinu 2009) sem þýðir að liðið hefur tekið þátt í 20 stórmótum á síðustu 18 árum og er það fáheyrt. Komst liðið til að mynda í 16 liða úrslit á HM í Frakklandi fyrr á árinu en tapaði þar fyrir heimamönnum sem síðar voru krýndir heimsmeistarar á sama móti.
Nú styttist í lokakeppni Evrópumótsins sem fram fer í Króatíu í upphafi næsta árs og hefur undirbúningur náð hámarki. Fjölmörg önnur landsliðsverkefni hafa verið hjá sambandinu það sem af er ári og enn fleiri landsliðsverkefni verða á næstunni. Gildir það jafnt um yngri landslið sem og A landslið.
HSÍ hefur að undanförnu gengið í gegnum umfangsmiklar breytingar á afreksstarfi sínu með aukinni aðkomu fagteymis. Þar má nefna endurskipulagningu á sérþjálfun allra landsliða í samvinnu við styrktarþjálfara, markmannsþjálfara, sálfræðinga og næringarfræðinga svo eitthvað sé nefnt.
Einnig er HSÍ í spennandi samstarfi með Háskólanum í Reykjavík þar sem öll landslið sambandsins ganga í gegnum ýmsar þol- og styrktarmælingar á vegum háskólans sem fróðlegt verður að fylgjast með. Einnig hefur þetta samstarf getið af sér fyrirlestra sem ber yfirskriftina “Afreksfólk framtíðarinnar” og eru ætlaðir öllum yngri landsliðum okkar til þess að skyggnast inn í heim atvinnumannsins og læra um það sem þarf til að ná langt í sinni íþrótt.
Það er því ljóst að viðbótarstyrkur Afrekssjóðs ÍSÍ hefur mikla þýðingu gagnvart því afreksíþróttastarfi sem á sér stað í íslenskum handknattleik karla og kvenna hjá HSÍ.
Á myndinni má sjá þau Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóra HSÍ, Guðmund, B. Ólafsson formann HSÍ, Lilju Sigurðardóttur formann Afrekssjóðs ÍSÍ og Lárus L. Blöndal forseta ÍSÍ við undirritun samnings um viðbótarstyrkinn