Í síðustu viku undirrituðu HSÍ og Íslandshótel með sér samstarfssamning og koma Íslandshótel inn í ört stækkandi hóp bakhjarla HSÍ.
Íslandshótel eiga og reka í dag 17 hótel um land allt. Þau eru Grand Hótel Reykjavík, stærsta ráðstefnuhótel landsins, hið sögufræga Hótel Reykjavík Centrum í miðborg Reykjavíkur og Fosshótel með 15 hótel staðsett hringinn í kringum landið. Vörumerki Íslandshótela mun verða á keppnistreyjum landsliða HSÍ.
Stórverkefni eru framundan hjá HSÍ á næsta ári. A landslið karla heldur á HM í Þýskalandi og Danmörku í janúar, A landslið kvenna spilar í maí og júní umspilsleiki fyrir HM2019 sem haldið verður í Japan. U21 landslið karla hefur tryggt sér þáttöku rétt á HM á Spáni í júlí og í ágúst heldur U19 karla til Makedóníu í ágúst til þáttöku á HM. U17 karla hefur tryggt sér þáttökurétt á Opna Evrópumótinu í Gautaborg og Ólympíuhátíð Evrópuæskunnar í Bakú og U19 og U17 kvenna taka þátt í B-deildum EM í Búlgaríu og Ítalíu.
Stuðningur frá íslensku atvinnulífi er sambandinu ómetanlegur nú sem áður. Báðir aðilar lýsa yfir ánægju sinni með þennan samning og vonast til þess að eiga gott samstarf í framtíðinni.