Handknattleikssambands Íslands hefur útnefnt eftirfarandi leikmenn handknattleiksmann og konu ársins 2015.

Handknattleikskona ársins 2015 er Íris Björk Símonardóttir. 

Íris Björk er 28 ára, fædd 26. júní 1987. Hún er uppalin í Gróttu og hefur alla tíð leikið með félaginu er frá er talið tímabilin 2009-2012 er hún lék með Fram. Íris lék sinn fyrsta meistaraflokks leik með Gróttu KR í september 2003. 

Íris hefur um árabil verið einn besti markvörður efstu deildar kvenna og hefur hún verið valin besti markvörður efstu deildar kvenna tímabilin 2010-2011, 2013-2014 og 2014-2015. Þá var hún valin efnilegasti leikmaður efstu deildar kvenna tímabilið 2005-2006.

Íris var í lykilhlutverki í liði Gróttu sem fagnaði sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli nú í vor ásamt því að Grótta varð einnig bikarmeistari í fyrsta sinn.

Íris lék sinn fyrsta landsleik gegn Færeyjum 21.maí 2005 og lék alls 67 landsleiki ásamt því að skora 4 mörk þar til hún lagði landsliðsskóna á hilluna sumarið 2014.

 

Handknattleiksmaður ársins 2015 er Guðjón Valur Sigurðsson landsliðsfyrirliði. 

Guðjón Valur er 36 ára, fæddur 8. ágúst 1979. Hann er alinn upp í Gróttu og lék þar alla yngri flokkana. Guðjón Valur spilaði með KA á Akureyri um tíma og varð Íslandsmeistari með þeim árið 2001 en hann fór í atvinnumennsku til Þýskalands það sumar. 

Í Þýskalandi spilaði hann með Essen og varð Evrópumeistari með þeim árið 2005, seinna það ár gekk hann til liðs við Gummersbach. Árið 2008 gekk hann til liðs við Rein-Neckar Löwen. Það var síðan tímabilið 2011-2012 sem hann söðlaði um og fór til Danmerkur og spilaði þar með AG Köbenhavn. Hann fór aftur til Þýskalands 2012 og gekk þá til liðs við Kiel. Hann varð Þýskalandsmeistari og þýskur bikarmeistari með Kiel 2013 og Þýskalandsmeistari 2014. 

Guðjón Valur gekk til liðs við Barcelona sumarið 2014. Með Barcelona varð hann Spánarmeistari í vor með fullt hús stiga ásamt því að sigra Meistaradeild Evrópu ásamt því að verða spænskur bikarmeistari. Hann hefur um árabil verið einn af bestu vinstri hornamönnum heims. 

Hann spilaði sinn fyrsta A-landsleik 16. desember 1999 í Haarlem í Hollandi á móti Rúmeníu og skoraði þar 2 mörk. Þá hefur hann verið lykilmaður í landsliðinu um langt skeið. Guðjón Valur hefur leikið 316 A-landsleiki og skorað í þeim 1677 mark. Þá lék hann 14 leiki með yngri landsliðum og skoraði í þeim 23 mörk.