Ísland vann Ítalíu öðru sinni á fjórum dögum þegar liðin mættust í Laugardalshöll í dag, 27:21, og er komið á topp síns riðils í undankeppni HM kvenna í handknattleik.
Eftir jafnan leik fyrstu mínúturnar náði íslenska liðið góðu forskoti þegar leið á seinni hálfleikinn með frábærum varnarleik og Florentinu Stanciu í miklum ham í markinu. Hún lokaði nánast markinu og staðan var 13:7 í hálfleik. Munurinn hefði hæglega getað verið meiri ef Ísland hefði nýtt hraðaupphlaup sín betur en talsvert var um klaufaleg mistök.
Í byrjun seinni hálfleiks kom eini virkilega slæmi kafli íslenska liðsins sem skoraði ekki mark fyrr en eftir sex og hálfa mínútu af honum. Það var Karen Knútsdóttir sem hjó á hnútinn með einu af 11 mörkum sínum en hún bar uppi sóknarleik íslenska liðsins og skoraði nánast að vild. Karen og Florentina áttu báðar stórleik fyrir Ísland í dag.
Gestirnir náðu að minnka muninn í þrjú mörk, 13:10 og 14:11, en svo stakk Ísland aftur af og munurinn fór mest í 10 mörk, 26:16.
Efsta lið riðilsins kemst í umspil um sæti á HM og Ísland er nánast öruggt um að landa því sæti eftir sigurinn í dag. Næsti leikur Íslands er gegn Makedóníu í Laugardalshöll á miðvikudagskvöld kl. 19.30, og riðlakeppninni lýkur í Skopje næstkomandi laugardag þegar Ísland sækir Makedóníu heim. Ísland vann útileikinn gegn Ítalíu 26:17 en á báða leikina við Makedóníu eftir. Ítalía vann báða leiki sína gegn Makedóníu.
Tekið af mbl.is.