ÍBV tryggði sér í dag Coca-Cola bikarmeistaratitil karla með því að leggja FH-inga í frábærum úrslitaleik í Laugardalshöll, 23-22. Staðan í hálfleik var jöfn, 11-11, Eyjamenn frísklegri framan af síðari hálfleik, en FH-ingar hleyptu mikilli spennu í hlutina undir lokin og hefðu með örlítilli heppni náð að jafna metin á lokasekúndunum.
Fyrri hálfleikurinn var nokkuð sveiflukenndur, FH-ingar virtust til alls líklegir framan af og náðu um tíma fjögurra marka forystu. Eyjamenn þéttu hins vegar raðirnir og náðu að jafna metin áður en fyrri hálfleikur var allur, 11-11. Eyjamenn voru afar sannfærandi framan af síðari hálfleik, spiluðu hörkufína vörn með Kolbein Aron í góðum gír á milli stanganna og upp úr miðjum síðari hálfleik virtust þeir ætla að vinna nokkuð sannfærandi sigur. FH-ingar mjökuðu sér hægt og rólega inn í leikinn, söxuðu jafnt og þétt á forskot Eyjamanna og minnkuðu muninn í eitt mark, 22-23, þegar tæp ein og hálf mínúta var til leiksloka. Eyjamenn klúðruðu næstu sókn, lokasóknin var því FH-inga og allt undir. Ísak Rafnsson var á þessum tímapunkti farinn meiddur af leikvelli og þrátt fyrir ágæta tilburði og mikinn vilja fundu FH-ingar ekki glufu á sterkri vörn Eyjamanna, lokatölur 23-22, og ÍBV er því Coca-Cola bikarmeistari karla 2015.
Mörk ÍBV: Andri Heimir Friðriksson 4, Einar Sverrisson 4, Agnar Smári Jónsson 4, Theodór Sigurbjörnsson 4 (2 víti), Guðni Ingvarsson 3, Grétar Þór Eyþórsson 3, Magnsú Stefánsson 1.
Varin skot: Kolbeinn Aron Arnarson 19.
Mörk FH: Andri Berg Haraldsson 5 (2 víti), Halldór Ingi Jónasson 4, Magnús Óli Magnússon 3, Ásbjörn Friðriksson 3, Theodór Ingi Pálmason 2, Jóhann Birgir Invarsson 2, Ísak Rafnsson 2, Benedikt Reynir Kristinsson 1 (1 víti).
Varin skot: Ágúst Elí Björgvinsson 19.