Spánverjar urðu í dag Evrópumeistarar í handknattleik karla í annað sinn í röð þegar að þeir lögðu Króata, 22:20, í úrslitaleik að viðstöddum 17.769 áhorfendum í Tele2 Arena í Stokkhólmi. Þetta er fyrsta sinn síðan 2002 sem landslið sömu þjóðar sem nær að verja Evrópumeistaratitilinn í karlaflokki. Síðast náði landslið Svíþjóðar að verja titil sinn árið 2002, þá í Globen-höllinni í Stokkhólmi, eftir að hafa unnið EM 1998 og 2000.
Um leið er þetta í annað sinn í sögunni sem landslið Spánar verður Evrópumeistari í karlaflokki en það hefur í tvígang orðið heimsmeistari, 2005 í Túnis og 2013 á heimavelli.
Spænska landsliðið var marki yfir í hálfleik í úrslitaleiknum, 12:11. Snemma í síðari hálfleik náðu Spánverjar fjögurra marka forskoti, 16:12. Króatar reyndu hvað þeir gátu til þess að snúa leiknum sér í hag en allt kom fyrir ekki.
Alex Dujshebaev innsiglaði sigurinn með 22. markinu 25 sekúndum fyrir leikslok.
Króatinn Domagoj Duvnjak var valinn besti leikmaður úrslitaleiksins.
Í úrvalslið mótsins voru valdir:
Markvörður: Gonzalo Perez de Várgas, Spáni – liðið var reyndar valið fyrir úrslitaleikinn en hann varði eins og berserkur í úrslitaleiknum og átti stóran þátt í koma spænska landsliðinu á sporið þegar hann kom fyrst til leiks eftir 18 mínútur þegar Króatar voru 10:7 yfir.
Vinstra horn: Magnus Jöndal, Noregi
Vinstri skytta: Sandor Sagosen, Noregi
Miðjumaður: Igor Karacic, Króatíu
Hægri skytta: Jorge Maqueda, Spáni – hann kom inn á í úrslitaleiknum í dag á sama tíma og Várgas markvörður og skoraði þrjú mörk í röð.
Hægra horn: Blaz Janc, Slóveníu
Línumaður: Bence Banhidi, Ungverjalandi
Varnarmaður: Hendrik Pekeler, Þýskalandi
Besti leikmaður mótsins: Domagoj Duvnjak, Króatíu
Markahæstir, fjöldi leikja innan sviga:
Sandor Sagosen, Noregi, 65 (9)
Nikita Vailupau, Hvíta-Rússlandi, 47 (7)
Nikola Bylik, Austurríki, 46(7)
Jure Dolenec, Slóveníu, 42 (9)
Artsem Karalek, Hvíta-Rússlandi, 37 (7)
Odrej Zdrahala, Tékklandi, 37 (7)
Alexander Petersson, Aron Pálmarsson og Bjarki Már Elísson voru markahæstir í íslenska landsliðinu á mótinu. Þeir skoruðu 23 mörk hver og voru í 37. sæti markalistans ásamt sænska hornamanninum Jerry Tollbring.
Sagosen setti markamet á mótinu. Hann skoraði 65 mörk, fjórum mörkum fleiri en Kiril Lazarov, Norður- Makedóníu, gerði á EM2012. Reyndar lék Lazarov sjö leiki á EM 2012. Sagosen átti einnig 54 stoðsendingar á mótinu og kom þar með beint við sögu í 119 af 273 mörkum norska landsliðsins í keppninni.
Noregur hlaut bronsverðlaun eftir sigur á Slóvenum í gær, 28:20. Þetta eru fyrstu verðlaun landsliðs Noregs á EM í karlaflokki. Áður hafði norska landsliðið best náð fjórða sæti á EM 2016.
Króatar hafa aldrei orðið Evrópumeistarar í karlaflokki en alls þrisvar sinnum orðið í öðru sæti.
Þýskaland vann Portúgal í leiknum um fimmta sætið, 29:27.
Slóvenía og Portúgal tryggðu sér farseðilinn í forkeppni Ólympíuleikanna sem fram fer 17.-19. apríl.
Endalega röð liðanna var þessi:
1. Spánn, 2. Króatía, 3. Noregur, 4. Slóvenía, 5. Þýskaland, 6. Portúgal, 7. Svíþjóð, 8. Austurríki, 9. Ungverjaland, 10. Hvíta-Rússland, 11. Ísland, 12. Tékkland, 13. Danmörk, 14. Frakkland, 15. Norður-Makedónía, 16. Sviss, 17. Holland, 18. Svartfjallaland, 19. Úkraína, 20. Serbía, 21. Pólland, 22. Rússland, 23. Bonsnía, 24. Lettland.
Næsta Evrópumót karla verður haldið í Ungverjalandi og Slóvakíu 13. – 30. janúar 2022.
Næsta Evrópumót kvenna fer fram í Danmörku og í Noregi 3. til 20. desember á þessu ári.
#ehfeuro2020 #dreamwinremember #handbolti #handball