Ísland tapaði fyrir Svartfjallalandi með eins marks mun, 25:24, þegar liðin mættust í undankeppni Evrópumóts karla í handknattleik í Bar í Svartfjallalandi. Bæði lið hafa nú tvö stig í riðlinum.
Íslenska liðið byrjaði leikinn vel og komst meðal annars í 4:1 snemma leiks, þar sem Alexander Petersson fór hamförum og skoraði fjögur fyrstu mörkin, en hann var tæpur fyrir leikinn vegna veikinda. Svartfellingar voru þó fljótir að taka við sér og jafna leikinn, en þeir komust yfir í fyrsta sinn í stöðunni 6:5.
Eftir það var jafnræðið nokkuð með liðunum, en slæmur kafli íslenska liðsins um miðbik hálfleiksins gaf Svartfellingum byr undir báða vængi og þegar flautað var til hálfleiks var tveggja marka munur á liðunum, staðan 14:12 í hálfleik fyrir Svartfjallaland.
Ekki byrjaði síðari hálfleikurinn betur, Svartfellingar náðu fljótt fimm marka forystu á meðan varnarleikur Íslands var ekki upp á marga fiska og sóknarleikurinn hélt áfram að hökta. Þegar leið á síðari hálfleikinn kom hins vegar góður kafli hjá íslenska liðinu sem skoraði þrjú mörk í röð og minnkaði muninn niður í eitt mark þegar fimm mínútur voru eftir.
Lokamínúturnar voru æsispennandi þar sem íslenska liðið gat í tvígang jafnað metin, en allt kom fyrir ekki. Ísland vann boltann þegar um tíu sekúndur voru eftir en skotið var slakt og fór af varnarmanni um leið og leiktíminn rann út. Lokatölur 25:24 fyrir Svartfjallaland.
Vuko Borozan reyndist íslenska liðinu erfiður og skoraði tíu mörk en Alexander Petersson var markahæstur hjá íslenska liðinu með átta mörk
Tekið af mbl.is.