Handknattleikssamband Evrópu (EHF) sendi frá sér tilkynningu í hádeginu þar sem farið er yfir frekara mótahald sem átti að fara fram í vor eða sumar á vegum sambandsins. Ákvarðanir þessar voru teknar á fjarfundi í morgun.

Þær ákvarðanir sem tengjast íslenskum landsliðum og félagsliðum má lesa um hér fyrir neðan.

A landslið karla



Keppni um laust sæti á HM hefur verið aflýst og þess í stað verður stuðst í árangur liðanna á EM í janúar. Spánn, Króatía og Noregur þegar tryggt sér sæti á HM með því að enda þreumur efstu sætunum á EM og þá eru Danir heimsmeistarar og áttu því sæti á HM. Þar fyrir utan komast eftirfarandi lið á EM: Slóvenía, Þýskaland, Portúgal, Svíþjóð, Austurríki, Ungverjaland, Hvíta-Rússaland, Ísland, Tékkland og Frakkland.

A landslið kvenna



Seinustu fjórum umferðunum í undankeppni EM 2020 hefur verið aflýst. Stuðst verður við lokaniðurstöðu liðanna á EM 2018 við ákvörðun um hvaða lið fara á EM í desember. Þau lið eru: Frakkland, Rússland, Holland, Rúmenía, Svíþjóð, Ungverjaland, Svartfjallaland, Þýskaland, Serbía, Spánn, Slóvenía, Pólland, Tékkland og Króatía. Noregur og Danmörk eru gestgjafar í mótinu. 

Yngri landslið karla



Evrópumótum 18 og 20 ára landsliða hefur verið frestað fram í janúar og verður nánari ákvörðun með dagsetningar tekin á stjórnarfundi EHF í júní. Evrópumót U-18 ára karla fer fram í Slóveníu en U-20 ára landsliðið spilar í Austurríki og á Ítalíu.

Yngri landslið kvenna



Í sumar átti að fara fram HM U-18 og U-20 ára landsliða en þeim hefur verið frestað. Ísland átti ekki þátttökurétt í þessum mótum en höfðu þess í stað verið skráð önnur verkefni. Þeim verkefnum hefur nú verið aflýst.

U-16 ára landslið kvenna átti að taka þátt í Opna Evrópumótinu í Svíþjóð en nú í morgun var ljóst að mótið fer ekki fram í ár.

Evrópukeppnir félagsliða



Karlalið Vals var komið í 8-liða úrslita Challenge Cup en þeirri keppni hefur verið aflýst bæði í karla- og kvennaflokki ásamt EHF keppnum karla og kvenna.

Úrslitahelgi meistaradeildar karla fer fram 28. og 29. desember í Köln. Þar spila tvö efstu lið A og B riðils; Barcelona, PSG, Kiel og Veszprém. 16- og 8-liða úrslitum keppninnar hefur verið aflýst.

Úrslitahelgi meistaradeildar kvenna fer fram 5. – 6. september í Búdapest. Fyrirkomulag úrslitahelgarinnar hefur þó ekki verið endanlega ákveðið þar sem 8-liða úrslitin hafa ekki verið spiluð og ennþá kemur til greina að leika úrslitahelgina í október.

Tilkynningu EHF má lesa í heild sinni HÉR.