Í 18. grein reglugerðar HSÍ um agamál kemur fram að „
stjórn eða framkvæmdarstjóri HSÍ sé heimilt að vísa til úrskurðar aganefndar hvers konar atvikum, svo sem bæði leikbrotum og agabrotum, sem skaðað geta ímynd handknattleiksíþróttarinnar, hvort sem viðkomandi hafi tekið þátt í leiknum eða ekki, og ekki komið fram í atvikaskýrslu dómara eða eftirlitsmanns. Um getur verið að ræða hvers kyns ósæmilega framkomu innan eða utan leiks eða á annan hátt opinberlega.

Framkvæmdarstjóri HSÍ vísaði ummælum sem féllu af hálfu Kristins Guðmundssonar þjálfara ÍBV á Vísi og mbl.is og Kristjáns Kristjánssonar, leikmanns ÍBV við RUV.is um dómara eftir leik ÍBV og Aftureldingar í OLÍS deild karla til aganefndar þriðjudaginn 15. október sl. Á fundi 23. október tók aganefndin fyrir málið og komst að þeirri niðurstöðu að ekki skildi frekar aðhafst í þessum málum.

Undirrituð harma mjög hvernig vegið var að persónum og starfi dómara í handknattleik á Íslandi, með ummælum þjálfara og leikmanns ÍBV. Dómaranefnd HSÍ telur málið grafalvarlegt þar sem vegið er að hlutleysi og æru dómaranna.

Undirrituð harma mjög niðurstöðu aganefndar í málunum og telja í raun óskiljanlegt að aganefnd hafi ekki beitt refsingu líkt og fordæmi undanfarinna ára í sambærilegum málum gefa tilefni til. Það er með ólíkindum að aganefnd skuli meta það sem svo að ummæli sem þarna féllu eins og mátti skilja frá leikmanni og þjálfara ÍBV, skuli ekki geta skaðað ímynd handknattleiksíþróttarinnar, eins og talað er um í fyrrnefndri 18. grein reglugerðar um agamál.  Dómaranefnd HSÍ á ekki annars kostar völ en að fordæma þessa niðurstöður aganefndar.

Starfsumhverfi dómara hlýtur þó að vera stórt spurningamerki eftir þennan úrskurð aganefndar. Endurnýjun deildardómara undanfarin ár hefur verið með minnsta móti og þó svo að eitthvað hafi bæst í hópinn í sumar er ljóst að þetta er ekki þessum starfshópi til góða. Undirrituð hafa áhyggjur af framtíð dómara í handknattleik þegar svona er í pottinn búið, varla er það félögunum eða handboltanum á Íslandi til framdráttar að þjálfarar eða leikmenn mæti í viðtöl eftir leik og láti allt flakka um dómara leiksins vitandi það að viðurlögin eru engin.

Reykjavík 23.10.19

Virðingarfyllst,

Reynir Stefánsson, formaður dómaranefndar

Kristján Gaukur Kristjánsson, nefndarmaður

Gísli H. Jóhannsson, nefndarmaður

Kristín Aðalsteinsdóttir, nefndarmaður