Dómaranefnd HSÍ hefur gefið út áherslur fyrir fyrri hluta keppnistímabilsins 2016-2017 en þær má sjá hér að neðan.

1. NÝJAR REGLUR

Nýjar reglur tóku gildi 1. júlí 2016 og verður dæmt eftir þeim í meistaraflokki og öðrum flokki karla strax í upphafi keppnistímabilsins. Helstu breytingar snúa að leikmönnum sem meiðast, síðustu 30 sekúndum leikja, þegar lið spilar án markvarðar, fjölda sendinga þegar búið er að gefa merki um leikleysu og blátt spjald í kjölfar útilokunar samkvæmt reglum 8:6 og 8:10. Auk þess eru nokkrar smávægilegar breytingar sem snúa að staðsetningu þjálfara við hliðarlínu og búningamála.

2. SKIPTISVÆÐI

Undanfarin ár hafa tveir starfsmenn fengið að standa í leikjum en nú hefur verið horfið frá því af ýmsum ástæðum s.s. vegna harðari aðgerða í alþjóðaboltanum og atriða sem komið hafa upp hér á landi. Ákveðið hefur verið að fylgja fast eftir þeim reglum sem eru um skiptisvæði í nýjum leikreglum en þar segir meðal annars;

Starfsmenn liðs hafa rétt til og er skylt að leiðbeina og stjórna liði sínu meðan á leik stendur, á drengilegan og íþróttamannslegan hátt innan ramma leikreglna. Almennt skulu þeir sitja á leikmannabekknum.  

Starfsmönnunum er þó heimilt að hreyfa sig um innan „þjálfarasvæðis“. „Þjálfarasvæðið“ er svæðið beint fyrir framan bekkinn og, ef mögulegt, einnig beint fyrir aftan hann.   

Hreyfingar og stöður innan „þjálfarasvæðis“ eru leyfðar með það í huga að gefa taktískar ábendingar og veita læknisaðstoð. Meginreglan er, að aðeins einn starfsmaður má standa eða hreyfa sig á sama tíma. Þó mega staðsetningar hans eða hegðun ekki trufla aðgerðir leikmanna á vellinum. Við brot á þessum reglum skal refsa starfsmanni stighækkandi

Tímavörður/ritari og eftirlitsmaður skulu aðstoða dómara við að fylgjast með skiptisvæði fyrir leik og meðan á leik stendur.   

Ef reglur um skiptisvæði eru brotnar er dómurum eða eftirlitsmönnum skylt að bregðast við samkvæmt reglu 4:2 þriðja málsgrein, 16:1b, 16:3d-f eða 16:6b-d (áminning, brottvísun, útilokun)