Haukar og KA/Þór mætast í fyrri undanúrslitaleik Coca Cola bikars kvenna á morgun, miðvikudaginn, í Laugardalshöll. Flautað verður til leiks klukkan 18 og skal leikið til þrautar eins og í öðrum leikjum úrslitahelgar Coca Cola bikarsins. Verði jafnt að loknum venjulegum leiktíma tekur við 2×5 mínútna framlenging. Ef jafnt verður að henni lokinni ráðast úrslit leiksins í vítakeppni.
„Það er annað að mætast í úrslitaleik þar sem allt er undir en í deildarleik. Þetta er annað svið með hærra spennustigi,“ sagði Karen Helga Díönudóttir, fyrirliði Hauka, í samtali við HSÍ á kynningarfundi vegna Coca Cola bikarsins fyrir helgina. Karen Helga tekur nú þátt í sjötta sinn í undanúrslitum með Haukum, þar af hefur hún einu sinni leikið til úrslita, fyrir tveimur árum. Alls hafa Haukar átt lið í undanúrslitum kvenna í 17 skipti frá því að fyrst var leikið í bikarkeppninni í kvennaflokki árið 1976.
Karen Helga segir það hafa háð Haukaliðinu í vetur að mæta pressunni þegar mikið er undir. „Við erum í stanslausri vinnu við að bæta okkur á þessu sviði og læra betur inn á að vinna með spennustigið.“
„Við töpuðum naumlega fyrir Haukum í undanúrslitum Coca Cola bikarsins fyrir tveimur árum. Það var mjög sárt. Margar okkar muna mjög vel eftir því. Ekki síst þess vegna ætlum við að leggja allt í sölurnar til þess að mæta enn sterkari og reynslunni ríkari að þessu sinni,“ sagði Ásdís Sigurðardóttir, fyrirliði KA/Þórs, og vitnar til undanúrslitaleiks Hauka og KA/Þórs fyrir tveimur árum sem lauk með tveggja marka sigri Hauka, 23:21.
Þetta er í þriðja sinn sem KA/Þór er í undanúrslitum Coca Cola bikars kvenna. Árið 2009 náði liðið svo langt í keppninni og aftur níu árum síðar. Þess má einnig geta að Þór Akureyri lék til úrslita í bikarnum fyrir 40 árum gegn Fram.
„Við erum með góða blöndu af yngri og eldri leikmönnum og þeim yngri þykir eðlilegt að hafa náð alla leið í undanúrslitin í bikarnum sem gefur öllum sjálfstraust. Okkar stefna er að fara í úrslitaleikinn. Það væri alveg geggjað,“ sagði Ásdís ennfremur.
„Úrslitin geta ráðist á því hvort liðið kemur betur undirbúið til leiks og tilbúið í slaginn,“ sagði Karen Helga en Haukar og KA/Þór mættust í Olís-deildinni á laugardaginn og þá unnu Haukar, 27:22. Úrslit þess leiks hafa ekkert vægi þegar komið verður út í undanúrslitaslaginn á miðvikudaginn. „Mesta pressan er á Arna Stefáni Guðjónssyni þjálfara okkar að klippa upptöku af fyrri leiknum svo við getum dregið lærdóm af honum fyrir viðureignina á miðvikudaginn í undanúrslitum Coca Cola bikarsins,“ sagði Karen Helga hress og kát.
„Oft er meira sveifla í bikarleikjum en í deildarleikjum. Þess vegna skiptir miklu máli að halda dampi hverju sem á gengur í leiknum. Fyrst og fremst eru þetta alltaf skemmtilegir leikir sem manni langar alltaf að taka þátt í,“ segir Karen Helga Díönudóttir fyrirliði Hauka.
„Það er komið að því að við stigum skrefið og förum alla leið í úrslitaleikinn. Allir leikmenn eru í toppformi og hlakkar til,“ sagði Ásdís Sigurðardóttir, fyrirliði KA/Þórs.
Undanúrslitaleikur Hauka og KA/Þórs hefst klukkan 18 í Laugardalshöll miðvikudaginn 4. mars.
Leið Hauka og KA/Þórs í undanúrslit:
Selfoss – KA/Þór 21:29
ÍR – KA/Þór 20:30
Haukar – ÍBV 29:25
Fjölnir – Haukar 20:33
Hægt er að kaupa miða á leikina á
www.tix.is
en frítt er inn á úrslitaleiki yngri flokka.
#handbolti #cocacolabikarinn