Fram og KA/Þór mætast í úrslitaleik Coca Cola bikarsins í handknattleik kvenna í Laugardalshöll á morgun klukkan 13.30 eftir að hafa lagt andstæðinga sína að velli í undanúrslitum á miðvikudagskvöld.
Fram leikur að þessu sinni til úrslita í 21. sinn í sögu bikarkeppninnar sem nær aftur til 1976 í kvennaflokki. Ekkert lið hefur oftar leikið til úrslita í keppninni en Fram en þar á eftir er Stjarnan sem á 15 úrslitaleiki að baki og Valur með 13. Af 20 úrslitaleikjum sem að baki eru hjá Fram-liðinu hefur það unnið 15 þeirra.
KA/Þór komst af harðfylgi í úrslitaleikinn að þessu sinni eftir sigur á Haukum, 22:21. Þetta er í fyrsta sinn sem sameiginlegt lið Akureyrarfélaganna nær þessu áfanga en áður var liðið í undanúrslitum 2009 og 2018. KA/Þór er fyrsta Akureyrarliðið til þess að tryggja sér sæti í úrslitaleik bikarkeppninnar í rétt 40 ár en 23. apríl 1980 lék Þór Akureyri til úrslita í bikarnum og þá við lið Fram eins og í dag. Fram vann leikinn fyrir 40 árum, 20:11, eftir jafnan fyrri hálfleik. Úrslitaleikurinn fór fram í íþróttaskemmunni á Akureyri.
Sex af leikmönnum Fram-liðsins sem lögðu Val í undanúslitum á miðvikudagskvöldið voru í bikarmeistaraliði félagsins fyrir tveimur árum, Þórey Rósa Stefánsdóttir, Ragnheiður Júlíusdóttir, Karen Knútsdóttir, Elva Þóra Arnardóttir, Hildur Þorgeirsdóttir og Steinunn Björnsdóttir.
Tveir leikmanna KA/Þórs hafa orðið bikarmeistarar. Ásdís Sigurðardóttir vann bikarinn með Stjörnunni 2005 og 2008 og Martha Hermannsdóttir var í sigurliði Haukar í bikarkeppninni 2006.
„Okkur er alveg saman hvort við mætum Fram eða Val í úrslitaleiknum. Það er bara gaman að keppa á móti stóru liðunum ,“ sagði Katrín Vilhjálmsdóttir, hornamaður KA/Þórs-liðsins í stuttu samtali við HSÍ eftir sigurinn á Haukum í undanúrslitum á miðvikudagskvöldið. Leikmenn KA/Þórs fóru norður rakleitt eftir leikinn á miðvikudagskvöldið og koma suður með flugi í dag en fimm leikmenn liðsins leika til úrslita í Coca Cola bikar 3. flokks kvenna í dag. Stefnt er að æfingu í Laugardalshöll seint í kvöld fyrir úrslitaleikinn á laugardaginn.
Gríðarlegur áhugi er að meðal Akureyringa fyrir leiknum og samkvæmt heimasíðum félaganna er stefnt að hópferðum suður. Félögin bjóða upp á fríar rútuferðir sem er einstaklega vel gert.
„Leikmenn KA/Þórs koma pressulausar í úrslitaleikinn á laugardaginn. Það getur verið erfitt að vera stóra liðið í bikarúrslitum eins og við eigum að vera,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir, leikmaður Fram, í samtali við HSÍ spurð um væntanlega úrslitaleik við KA/Þór. „Ef ég þekki leikmenn KA/Þórs rétt þá berja þær hressilega frá sér. Af þeim sökum verðum við að vera vel undirbúnar fyrir úrslitaleikinn. Þær munu ekkert gefa eftir. Það er ljóst,“ sagði Þórey Rósa sem varar við að menn velti sér of mikið upp úr fyrri leikjum liðanna á tímabilinu í Olísdeildinni en þá vann Fram með miklum mun. „Við verðum einfaldlega að mæta með sama hugarfari í úrslitaleikinn og í viðureignina við Fram og hjálpa hverri annarri frá upphafi til enda,“ sagði Þórey Rósa Stefánsdóttir, leikmaður Fram.
Sem fyrr segir hefst úrslitaleikur Fram og KA/Þórs í Coca Cola bikar kvenna klukkan 13.30 á morgun, laugardag, í Laugardalshöll.
Hægt er að kaupa miða á leikina í Coca Cola bikarnum á
www.tix.is
.
Allir leikir Coca Cola bikarsins eru beinni textalýsingu hjá HBStatz sem finna má inn á hsi.is undir liðnum í beinni.
#handbolti #cocacolabikarinn