Leikmenn Aftureldingar og Stjörnunnar eigast við í síðari undanúrslitaleik Coca Cola bikarsins í karlaflokki annað kvöld í Laugardalshöll. Flautað verður til leiks klukkan 20.30. Þetta verður í fyrsta sinn sem lið þessara félaga mætast í undanúrslitum Coca Cola bikarsins. Stjarnan á nú sæti í þrettánda sinn í undanúrslitum í karlaflokki og Afturelding er með lið í þessu sporum í sjötta skipti.

Stjarnan var síðast í undanúrslitum fyrir fjórum árum en þrjú ár eru liðin síðan Mosfellingar náðu svo langt í Coca Cola bikarnum.

„Menn vita að það eina sem gildir er sigur og þess vegna er oft fast tekist á um leið og taugarnar eru þandar til hins ítrasta,“ sagði Tandri Már Konráðsson, leikmaður Stjörnunnar í samtali við HSÍ.

„Bikarinn er alltaf skemmtileg keppni. Maður brennur fyrr þessa leiki. Allir vilja vinna bikara þegar þeir eru í boði,“ sagði Tandri Már sem telur Stjörnuliðið koma afar vel búið undir leikinn annað kvöld. „Reynslan er fyrir hendi hjá okkur til að vera rétt innstilltir í svo mikilvægan leik sem undanúrslitaleikur í bikarnum er. Maður er tilbúinn að fórna öllu til þess að vinna. Ég veit að allir í mínu liði eru sama sinnis,“ sagði Tandri Már sem flutti heim síðasta sumar eftir nokkurra ára veru sem atvinnumaður á Norðurlöndum.

„Menn verða að klárir í slaginn um leið og flautað er til leiks. Það getur verið afdrifaríkt að missa andstæðinginn langt fram úr sér á upphafsmínútunum í svona leik þar sem taugarnar eru þandar,“ sagði Einar Ingi Hrafnsson. „Við höfum fengið góðan tíma til að búa okkur undir leikinn. Margir okkar hafa áður verið í þeim sporum að ná svo langt í bikarnum. Nú er tími til þess kominn að nýta reynsluna.

Þegar Afturelding vann Hauka í undanúrslitum fyrir þremur árum var um að ræða afar kaflaskiptan leik. Mosfellingar voru sjö mörkum undir í hálfleik, 18:11, en sneru taflinu við í síðari hálfleik og unnu með einu marki.  Einar Ingi segir þessa staðreynd undirstrika að menn verði að vera búnir undir að margt geti gerst og sveiflur geti verið innan leikja. „Maður veit aldrei hvað andstæðingurinn býður upp á. Undirbúningur leikjanna snýst stundum um að menn geti fundið einhverstaðar veikleika hjá andstæðingnum sem hægt er að herja á með óvæntum hætti. Úrslitaleikir sem þessir geta verið refskák af hálfu þjálfarann en það er ekki nóg ef leikmennirnir á vellinum eru ekki vel undirbúnir,“ sagði Einar Ingi Hrafnsson, leikmaður Aftureldingar.

Stuðningsmenn Stjörnunnar og Aftureldingar  koma saman fyrir leik og standa bæði félög fyrir hópferðum með sitt fólk á undanúrslitaleik Coca Cola bikarsins í Laugardalshöll á morgun. Nánari upplýsingar er að fá á heimasíðum félaganna og á samfélagsmiðlasíðum þeirra.

Leið Aftureldingar og Stjörnunnar í undanúrslit Coca Cola bikarsins:

Afturelding – Valur2 36:30

Afturelding – KA 29:26

Afturelding – ÍR 38:31

Stjarnan sat yfir í fyrstu umferð

Stjarnan – HK 27:24

Stjarnan – Selfoss 34:21

Eins og fyrr segir þá er Stjarnan að þessu sinni í þrettánda sinn í undanúrslitum Coca Cola bikars karla. Átta sinnum hefur Stjarnan náð inn í úrslit keppninnar og fjórum sinnum hafa leikmenn liðsins hampað bikarnum, síðast fyrir 13 árum.

Fyrst voru Stjörnumenn í undanúrslitum árið 1984 er þeir lögðu Val, 21:19, í undanúrslitum og mættu Víkingi í úrslitaleik. Leikmenn Stjörnunnar máttu bíta í þar súra epli að tapa úrslitaleiknum, 24:21, þrátt fyrir frábæran upphafskafla þegar liðið skoraði níu af fyrstu 11 mökum leiksins. Stjarnan var á ný í undanúrslitum 1985 en tapaði naumlega fyrir FH, 23:22. Árið eftir fór Stjarnan í úrslit en tapaði fyrir Víkingi, 19:17, í úrslitaleik eftir að hafa lagt Ármann í undanúrslitum, 22:11.

Stjörnumenn lögðu ekki árar í bát og árið 1987 rann þeirra ár upp í bikarnum. Sigri á Víkingi, 29:26 í undanúrslitum, var fylgt eftir með sigri á Fram í framlengdum úrslitaleik, 26:22, hinn 12. apríl í Laugardalshöll. Var þetta í fyrsta sinn sem Stjarnan vann einn af stóru titlunum í meistaraflokki í handknattleik. Þjálfari var Páll Björgvinsson sem jafnframt lék með liðinu.

Afturelding komst fyrst í undanúrslit bikarkeppninnar árið 1999 undir stjórn Skúla Gunnsteinssonar, þjálfara, sem var  ungir leikmaður í bikarmeistaraliði Stjörnunnar 12 árum fyrr. Afturelding vann Fram, 25:22, í undanúrslitum og gerði sér lítið fyrir og skellti FH með fimm marka mun í úrslitaleiknum í Laugardalshöll 13. febrúar 1999, 26:21.

Síðan þá hefur Afturelding fimm sinnum komst í undanúrslit Coca Cola bikarsins að meðtöldu árinu í ár, þar af tvisvar í úrslitaleikinn, 2003 og 2017, en beðið lægri hlut í bæði skipti.

Hægt er að kaupa miða á leikina í Coca Cola bikarnum á 

www.tix.is

 en frítt er inn á úrslitaleiki yngri flokkana á föstudag og á sunnudag.

#handbolti  #cocacolabikarinn