ÍBV er Coca Cola bikarmeistari í handknattleik karla 2020 eftir að hafa lagt Stjörnuna, 26:24, í stórskemmtilegum úrslitaleik í Laugardalshöll í dag þar sem úrslitin réðust ekki fyrr á síðustu hálfu mínútu leiksins. Þetta var í fjórða sinn sem ÍBV leikur til úrslita og um leið fjórði sigur liðsins í keppninni frá 1991 er ÍBV lék fyrst til úrslita í bikarkeppninni.
Stjörumenn léku að þessu sinni til úrslita í níunda sinn. Þeir veittu Eyjamönnum verðuga og skemmtilega keppni frá fyrstu mínútu til þeirrar síðustu.
Stjarnan byrjaði aðeins betur og var yfir framan af. Upp úr miðjum hálfleik tókst ÍBV að snúa leiknum sér í hag með fjórum mörkum í röð og komast yfir, 7:5. Stjörnumenn létu það ekki slá sig út af laginu heldur minnkuðu munin og héldu í við ÍBV-liðið allt til loka hálfleiksins en það var ÍBV reyndar marki yfir, 10:9.
Skemmtunin hélt áfram í síðari hálfleik. Leikurinn var hnífjafn og spennandi. Liðin skiptust á að vera með yfirhöndina svo vart mátti milli sjá.
Þegar tíu mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn, 20:20. Skömmu síðar skoraði Theodór Sigurbjörnsson tvö mörk í röð eftir hraðaupphlaup og kom ÍBV þremur mörkum yfir með síðara markinu, 23:20. Björninn var þó ekki unninn. Stjörnumenn bitu frá sér á ný og tókst að jafna metin, 24:24 þegar hálf önnur mínúta lifði af leiktímanum. Kári Kristján Kristjánsson skoraði úr vítakasti 25.marki ÍBV þegar 50 sekúndur voru til leiksloka. Stjarnan fékk sókn til að jafna metin en misstu boltann frá sér. Leikmenn ÍBV hófu sókn sem lauk með marki Fannars Þórs Friðgeirssonar fimm sekúndum fyrir leikslok en með því innsiglaði Fannar Þór sigur ÍBV, 26:24, og fjórða sigur ÍBV í keppninni.
Mikil bárátta og gríðarlega stemning var á leiknum en heita mátti á Laugardalshöllin væri fullsetin af stuðningsmönnum liðanna sem setti mikinn svip á leikinn frá upphafi til enda. Þeir áttu einn stærstan þátt í þeirri frábæru stemningu sem var í Laugardalshöll frá upphafi til enda leiksins og eiga þeir þakkir skildar. En auðvitað voru leikmenn beggja liða í aðalhlutverkum en með frábærri frammistöðu í leiknum varð úr minnistæður kappleikur.
Petar Jokanovic, markvörður ÍBV, var valinn maður leiksins.
„Þetta var geggjað. Leikurinn var algjör naglbítur og fæðingin var erfið í leik sem langt í frá sá besti sem við höfum leikið en sigurinn var sætur og nú má snjóa mín vegna fram í maí,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson, leikmaður ÍBV, eftir sigurinn í Coca Cola bikarnum í dag. „Skrímslunu var gefið fyrir leik, það tók boltann á loftið og sprakk út í restina. Þá sigrinum siglt heim. Menn henda ekki bandalaginu undir rútuna í fjölmiðlum án þess að það springi í andlitið á þeim,“ sagði Kári Kristján
Kári Kristján segist tileinka Kolbeini Aroni Arnarsyni, fyrrverandi markverði liðsins sigurinn í dag, en Kolbeinn var bráðkvaddur um jólin 2018. „Kolli mínn fylgist með okkur og ég er sannfærður um að hann er skála þessa stundina. Við hugsum til hans enda voru svona stundir hans helstu stundir,“ sagði Kári Kristján.
Eyjamenn sjá fram á siglingu heim með bikarinn og fjölmennum hópi stuðningsmanna. „Nú verður opnaður einn minute maid, léttur, síðan tekur við sódavatn eins og enginn sé morgundagurinn. Mér alveg drullusama þótt við færum til Seyðisfjarðar fyrst, áður en við förum heim því ég veit að við endum alltaf heima í Eyjum,“ sagði Kári Kristján Kristjánsson, leikmaður Coca Cola meistara ÍBV í samtali við HSÍ.
Mörk ÍBV: Kristján Örn Kristjánsson 6, Theodór Sigurbjörnsson 5, Hákon Daði Styrmisson 4/1, Kári Kristján Kristjánsson 4/3, Fannar Þór Friðgeirsson 4, Sigurbergur Sveinsson 1, Elliði Snær Viðarsson 1, Róbert Sigurðsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 15/2.
Mörk Stjörnunnar: Sverrir Eyjólfsson 7, Leó Snær Pétursson 5/1, Tandri Már Konráðsson 5, Ari Magnús Þorgeirsson 3, Andri Már Rúnarsson 2, Ólafur Bjarki Ragnarsson 1, Ragnar Snær Njálsson 1.
Varin skot: Brynjar Darri Baldursson 11.
Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson dæmdu leikinn.
#cocacolabikarinn #handbolti