Fjórir áratugir eru liðnir síðan Fram og Þór Akureyri áttust við í úrslitaleik bikarkeppninnar í handknattleik kvenna. Er það í eina skiptið fram til dagsins á morgun sem lið frá Akureyri hefur leikið til úrslita í keppninni en á morgun kljást KA/Þór og Fram í úrslitaleik Coca Cola bikarsins í Laugardalshöll. Flautað verður til leiks klukkan 13.30.

Óhætt er að segja að mikið vatn hafi runnið til sjávar á þeim 40 árum sem liðin eru frá úrslitleik Þórs og Fram.. Leikurinn fór fram í Íþróttaskemmunni á Akureyri síðasta vetrardag, 23. apríl. Fram var á þessum árum með afar sterkt lið og hafði m.a. unnið keppnina 1976, 1978 og 1979. Bikarkeppnin í kvennaflokki var sett á laggirnar 1976.

Margir landsliðsmenn voru í liði Fram en Þórsliðið var skipað lítt reyndari liðsmönnum sem höfðu spjarað sig vel í deildarkeppninni. Þór lagði Ármann 20:18 í undanúrslitum. Ármann var á þessum árum með gott lið og hafði m.a. orðið bikarmeistari 1977 eftir tvöfaldan leik við KR-inga, þ.e. eftir jafntefli í úrslitaleiknum var gripið til þess að láta liðin mætast á ný. Framlengingar voru ekki teknar upp í úrslitaleikjum bikarkeppninnar fyrr en eftir 1980 og uppákomur í kringum endurtekinn úrslitaleik Hauka og KR í karlaflokki 1980.

Fram vann Val, 21:14, í undanúrslitum. Svo vill til að Framarar lögðu einnig Val örugglega í undanúrslitum nú 40 árum síðar.

Í úrslitaleiknum var Framliðið með tveggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 8:6. Leiðir skildu í síðari hálfleik. Lauk leiknum  með níu marka sigri Fram, 20:11.

Lítil virðing virðist hafa verið borin fyrir úrslitaleiknum á Akureyri fyrir 40 árum. Umgjörðin var fábrotin og m.a. var enginn fulltrúi Handknattleikssambandsins á úrslitaleiknum né heldur verðlaunabikarinn. Bikarinn sem var afhentur í leikslok, og sjá má í höndum Oddnýjar Sigsteinsdóttur á mynd af Fram-liðinu sem fylgir með frásögninni á Facebook-síðu HSÍ, var fenginn að láni úr bikarsafni Íþróttabandalags Akureyrar, ÍBA. Bikarnum var vitanlega skilað þangað á ný að lokinni bikarafhendingu og myndatöku, áður en Fram-liðið lagði af stað til Reykjavíkur.

Umfjöllun um leikinn í fjölmiðlum var af skornum skammti og eitt dagblaðanna lét líða þrjár vikur frá leikslokum og þar til það birti mynd af bikarmeisturunum.

„Ég man eftir leiknum en fyrst og fremst situr það helst eftir í minningunni að enginn var bikarinn né fulltrúi HSÍ á staðnum,“ sagði Guðríður Guðjónsdóttir, markahæsti leikmaður Fram í úrslitaleiknum 1980 með níu mörk, þegar hún var innt eftir leiknum í vikunni.

„Til afhenda einhvern bikar í leikslok þá var fenginn bikar að láni frá ÍBA. Aðstæður og umgjörð bikarúrslitaleikja er allt önnur í dag sem betur fer og ég get lofað því að svona nokkuð gæti aldrei gerst í dag,“ sagði Guðríður sem situr m.a. nú í stjórn HSÍ og er formaður landsliðsnefndar kvenna.

Leikurinn var hinsvegar skemmtilegur. Leikið var í Skemmunni. Ég kunni alltaf vel við mig í því húsi,“ sagði Guðríður ennfremur. Þess má geta að í Skemmunni eru nú skrifstofur og verslun með byggingavörur og fylgihluti.

„Eins og bikarkeppnin er í dag þá hún alveg ótrúlega skemmtileg svo ekki sé talað um umgjörðina í kringum úrslitahelgi Coca Cola bikarsins af hálfu HSÍ og félaganna. Það er ekkert saman að jafna í dag og fyrir 40 árum,“ sagði Guðríður sem mun örugglega ekki láta sig vanta í Laugardalshöll á morgun þegar Fram og KA/Þór leika í 45. úrslitaleik bikarkeppninnar.

Þar með er kannski ekki öll sagan sögð þótt hún tengist ekki þráðbeint bikarkeppninni. Daginn eftir bikarúrslitaleikinn í Skemmunni á Akureyri var hluti Fram-liðsins mættur í landsleik við Færeyinga í íþróttahúsinu við Strandgötu í Hafnarfirði. Og ekki nóg með það heldur lék landsliðið þrjá leiki á jafnmörgum dögum í röð við landslið Færeyinga. „Við unnum tvo fyrstu leikina örugglega en mörðum tveggja marka sigur í síðasta leiknum. Þetta var hálf dapurt í beinu framhaldi af umgjörðinni í bikarleiknum fyrir norðan. Færeysku konurnar þurftu meðal annars að syngja eigin þjóðsöng fyrir fyrsta leikinn þar sem engin upptaka af þjóðsöngnum fannst,“ sagði Guðríður Guðjónsdóttir, handknattleikskona, þjálfari og nú stjórnamaður hjá Handknattleikssambandi Íslands.

Af Þórsliðinu þetta keppnistímabilið er það að segja að það hélt sæti sínu í efstu deild með sigri á Ármanni, 18:17, viku eftir úrslitaleikinn í bikarkeppninni.

Á Facebook-síðu Handknattleikssamband Íslands er að finna myndir af liðum Fram og Þórs sem léku úrslitaleikinn 1980 auk myndar úr leiknum sjálfum. Einnig er þar að finna blaðaúrklippur sem tengjast úrslitaleiknum 1980.

Skapti Hallgrímsson, blaðamaður á Akureyri, gaf góðfúslegt leyfi til birtingar á myndum úr safni sínu. Annarsvegar er mynd af Þórs-liðinu sem lék bikarúrslitaleikinn 1980 og hinsvegar mynd af Þórunni Sigurðardóttur leikmanni Þórs í gegnumbroti í úrslitaleiknum við Fram. Hann sá einnig um nafnsetja leikmenn Þórs á myndinni. HSÍ þakkar Skapta kærlega fyrir aðstoðina og afnotin af myndunum.

 

Ívar Benediktsson, blaðamaður tók efnið saman fyrir HSÍ í tilefni af bikarúrslitaleik Fram og KA/Þórs í Coca Cola bikar kvenna í Laugardalshöllinni á morgun laugardag klukkan 13.30. –
ivarbenediktsson@gmail.com

#cocacolabikarinn #handbolti

Hægt er að kaupa miða á leikina á 

www.tix.is

.