Bakhjarlar | Samskip hafa stutt HSÍ í aldarfjórðung
Handknattleikssamband Íslands og Samskip hafa endurnýjað samstarfssamning sín á milli en Samskip hafa verið öflugur bakhjarl HSÍ frá 1998. Vörumerki Samskipa hefur verið áberandi hjá öllum landsliðum HSÍ, bæði á baki landsliðstreyja og á stuttbuxum. Þá er stuðningur Samskipa við HSÍ er ekki einvörðungu í fjárhagslegu formi heldur hafa Samskip líka annast um flutning og geymslu á keppnisgólfi sambandsins.
„Við erum afar stolt af stuðningi Samskipa við handboltalandsliðin og að hafa nú í aldarfjórðung tekið þátt í bæði gleði og sorgum á vellinum. Áframhaldandi stuðningur er í takti við nálgun okkar á viðskiptasambönd, að rækta þau og fylgja eftir þannig að árangur náist. Að baki er langtímahugsun og við hlökkum til áframhaldandi samstarfs við HSÍ.“ segir Birkir Hólm Guðnason, forstjóri Samskipa á Íslandi.
„HSÍ og Samskip hafa unnið vel og náið saman frá 1998 og er það fagnaðarefni fyrir íslenskan handknattleik að það samstarf sé nú endurnýjað. Stuðningur frá íslensku atvinnulífi er sambandinu ómetanlegur nú sem áður og byggir sterkar stoðir undir uppbyggingu handboltans á Íslandi.“ segir Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ
HSÍ lýsir yfir ánægju sinni með samninginn og vonast til þess að eiga gott samstarf við Samskip í framtíðinni.