HSÍ | Stjórn HSÍ skipar nefnd um stefnu kvennahandboltans á Íslandi
Í dag fór fram 64. ársþing Handknattleikssambands Íslands og að þessu sinni fór ársþingið fram í gegnum fjarfundarbúnað sökum samkomutakmarkanna og tóku yfir 70 einstaklingar úr handknattleikshreyfingunni þátt í fundinum.
Endurkjörin til næstu tveggja ára í stjórn sambandsins voru þau Guðmundur B. Ólafsson (formaður), Davíð B. Gíslason (varaformaður), Jón Viðar Stefánsson (markaðsnefnd) og Páll Þórólfsson (landsliðsnefnd karla). Þá kemur Inga Lilja Lárusdóttir inn sem nýr formaður fræðslu- og útbræðslunefndar. Fyrir í stjórn voru þau Arnar Þorkelsson (gjaldkeri), Reynir Stefánsson (dómaranefnd), Kristín Þórðardóttir (mótanefnd) og Guðríður Guðjónsdóttir (landsliðsnefnd kvenna). Þá voru kjörin í varastjórn þau Alfreð Örn Finnsson, Guðmundur Þór Jónsson og Hrafnhildur Ósk Skúladóttir en Guðmundur og Hrafnhildur koma ný inn.
Velta HSÍ á árinu var rúmlega 249 milljónir kr. sem er um 50 milljónum kr. lægri frá árinu á undan. Hagnaður HSÍ árið 2020 var rúmar 53 milljónir kr. en þetta er þriðja árið í röð sem sambandið skilar hagnaði. Aukinn hagnaðar skýrist aðallega á samdrætti í verkefnum 2020 sem að hluta hafa færst yfir á árið 2021 auk þess sem mikið aðhald var í rekstri sökum Covid 19. Þá ríkir mikil óvissa með rekstrarárið 2021 þar sem aukinn kostnaður er við ferðalög og sóttvarnir og óvíst með verkefni yngri landsliða í sumar.
Fimm lagabreytingar voru gerðar á þinginu en umræður voru líflegar og málefnalegar en engar stórar breytingar voru gerðar á starfsemi sambandsins. Ársþing ákvað að fela stjórn HSÍ að skipa nefnd til að móta stefnu til framtíðar fyrir kvennahandboltann á Íslandi. Þá var uppfærð afreksstefna HSÍ samþykkt.
Skýrslu ársþingsins má finna hér.