Úrskurður aganefndar 7. maí 2019

Eftirtalin mál lágu fyrir og voru tekin til úrskurðar:



1.
Mikaela Nótt Pétursdóttir leikmaður Hauka hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik Hauka og ÍBV í 4. fl. kv. þann 5.5.2019. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 a. Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.

2.
Viktor Andri Jónsson leikmaður Vals hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik Vals og Fjölnis/Fylkis í 3.fl. ka. þann 5.5.2019. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 a. Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.

3.
Í skýrslu eftirlitsmanns eftir leik Vals og Fjölnis/Fylkis í 3. fl. ka. þann 5.5. 2019 kemur fram að upp hafi komið atvik milli þjálfara Vals, Heimis Ríkarðssonar,  og eftirlitsmanns eftir að leik lauk. Í ljósi atvika málsins telur aganefnd rétt að leita umsagnar Vals um atvikið áður en úrskurðað verður í málinu. 

4.
  Í skýrslu eftirlitsmanns eftir leik Vals og Fjölnis/Fylkis í 3.fl.ka. þann 5.5. 2019 kemur fram að upp hafi komið atvik milli forystumanns Vals og eftirlitsmanns HSÍ eftir að leik lauk. Aganefnd telur að af lýsingum að dæma kunni að vera um að ræða atvik er heyri undir 17. gr. reglugerðar HSÍ um agamál. Með vísan til 4. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar mun aganefnd leita umsagnar Vals áður en úrskurðað verður í málinu.

5.
Arnar Daði Arnarsson þjálfari Vals hlaut útilokun með skýrslu vegna grófrar óíþróttamannslegrar hegðunar eftir leik Vals og Selfoss í 4. fl. ka. eldri þann 5.5.2019. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:10 a). Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að þjálfarinn er úrskurðaður í eins leiks bann. Aganefnd vekur jafnframt athygli á stighækkandi áhrifum leikbanna, skv. 1. mgr. 11. gr. sömu reglugerðar.

6.  Með tölvupósti dags. 6. maí 2019 barst aganefnd krafa ÍBV um endurskoðun úrskurðar aganefndar dags. 4. maí s.l. þar sem leikmaðurinn Kári Kristján Kristjánsson var úrskurðaður í þriggja leikja bann vegna leikbrots.  Í erindinu er rakið að ÍBV telji fyrri úrskurð nefndarinnar byggja á röngum upplýsingum um afleiðingar leikbrotsins sem koma fram í skýrslu dómara leiksins. Vísast þar meðal annars til þeirrar staðreyndar að leikmaðurinn sem fyrir brotinu varð tók fullan þátt í næsta leik liðs síns. Aganefnd lítur svo á að með erindi sínu sé ÍBV að krefjast endurupptöku málsins á grundvelli 8. gr. reglugerðar HSÍ um agamál. Samkvæmt umræddri grein hefur aganefnd heimild til að leiðrétta fyrri úrskurð eða kveða upp nýjan úrskurð ef augljóst er að kveðinn hafi verið upp rangur úrskurður vegna formgalla, svo sem vegna rangra upplýsinga í skýrslu dómara. Skýrt er hins vegar að aganefnd er ekki heimilt að taka mál aftur upp til efnismeðferðar á grundvelli ákvæðisins. Málið var tekið til umfjöllunar á fundi aganefndar. Með vísan til framangreinds er það niðurstaða aganefndar að athugasemdir ÍBV vísa ekki til formgalla í skilningi reglugerðarinnar og enginn formgalli sé á málinu sem heimilar að málið verði tekið upp að nýju. Úrskurður aganefndar dags. 4. maí 2019 skal því vera óraskaður. 

Aganefnd telur rétt að geta þess að ákvarðanir dómara byggðar á mati þeirra á staðreyndum eða mati þeirra eru endanlegar samkvæmt 17:11 leikreglna. Þá heyrir til undantekninga að gögn eða áreiðanlegar upplýsingar liggi fyrir sem staðfesta alvarleika áverka sem af brotum hljótast. Mat aganefndar á brotum við ákvörðun leikbanna hverju sinni er hlutrænt. Ræðst niðurstaðan fyrst og fremst af hættueiginleikum brotanna sem um ræðir og hvort háttsemin sé til þess fallin að hún geti valdið alvarlegum afleiðingum. 

Fleiri mál lágu ekki fyrir.

Úrskurðurinn tekur gildi strax.

Úrskurðinn kváðu upp Sverrir Pálmason, Arnar Kormákur Friðriksson og Arnar Þór Sæþórsson.