Úrskurður aganefndar 21. nóvember 2023.
Eftirtalið mál lá fyrir og var tekið til úrskurðar:
Aganefnd hefur borist erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ vegna framkomu starfsmanns leiks KA og Aftureldingar í Olís-deild karla sem fram fór þann 9. nóvember sl. Í erindinu kom meðal annars fram umræddur starfsmaður hafi viðhaft gróft orðbragð gagnvart dómurum leiksins.
Samkvæmt 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er stjórn eða framkvæmdastjóra HSÍ heimilt að vísa til aganefndar atvikum sem skaðað geta ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Um getur verið að ræða hvers kyns ósæmilega framkomu innan eða utan leiks eða á annan hátt opinberlega.
Handknattleiksdeild KA var gefinn kostur á að skila inn greinargerð sem barst aganefnd. Er þar gengist við háttseminni og beðist afsökunar á henni.
Með vísan til framangreinds telur aganefnd ljóst að umrætt atvik uppfylli öll skilyrði 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál og telur aganefnd að mál þetta varði sekt gagnvart handknattleiksdeild KA.
Telur aganefnd með hliðsjón af atvikum málsins að sú sekt sé hæfilega ákvörðuð að fjárhæð kr. 50.000.
Fleiri mál lágu ekki fyrir.
Úrskurðinn kváðu upp Sverrir Pálmason, Arnar Kormákur Friðriksson og Ágúst Karl Karlsson.