Úrskurður aganefndar 2. nóvember 2021
Eftirtalin mál lágu fyrir og var tekið til úrskurðar:
- Aganefnd barst skýrsla frá dómara vegna framkomu aðila í leik Vals U og Harðar í Grill 66 deild karla 15. október 2021. Í skýrslunni kom fram að aðilanum hafi verið vísað úr húsi af dómara vegna vítaverðrar framkomu gagnvart starfsmönnum leiksins.
Í 17. gr. reglugerðar HSÍ um agamál kemur fram að „ef áhorfendur, þar með taldir forystumenn félaga, gerast sekir um vítaverða eða hættulega framkomu gagnvart leikmönnum, dómurum eða starfsmönnum leiks, er aganefnd heimilt að sekta viðkomandi félag þar sem leikurinn fer fram sem og gestaliðið í sérstökum tilvikum.“
Handknattleiksdeild Harðar var gefinn frestur til að skila inn greinargerð sem barst aganefnd. Þá var leitað eftir athugasemdum og sjónarmiðum handknattleiksdeildar Vals vegna málsins og einnig liggur fyrir myndbandsupptaka af leiknum. Af fyrirliggjandi gögnum málsins er ljóst að hlutaðeigandi aðili var á vegum handknattleiksdeildar Harðar, en orðaval hans á fyrrgreindri myndabandsupptöku rennir enn frekari stoðum undir það. Þó aðilum beri ekki saman um málsatvik, þá er hafið yfir vafa að mati aganefndar, að það orðfæri sem var viðhaft og lýst í skýrslu dómara, og heyrist að hluta til á fyrirliggjandi myndbandsupptöku, teljist vítaverð framkoma gagnvart starfsmönnum leiksins. Þá fær þetta frekari stoð í skýrslu handknattleiksdeildar Vals. Aganefnd telur því ljóst að umrætt atvik uppfylli öll skilyrði 1. mgr. 17. gr. reglugerðar HSÍ um agamál. Hreyfa þau sjónarmið sem reifuð eru í greinargerð handknattleiksdeildar Harðar ekki við því mati.
Með vísan til alls framangreinds, og mikilvægi íþróttamannslegrar háttsemi jafnt utan vallar sem innan, telur aganefnd að mál þetta varði sektum gagnvart handknattleiksdeild Harðar. Telur aganefnd með hliðsjón af atvikum málsins að sú sekt sé hæfilega ákvörðuð að fjárhæð kr. 25.000,- vegna þessa.
- Aðalsteinn Ernir Bergþórsson leikmaður Þórs hlaut útilokun með skýrslu vegna óíþróttamannslegrar hegðunar í leik í leik Þórs og Aftureldingar í Grill 66 deild karla þann 29.10.2021. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:10 d). Með tilvísun í 10. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að leikmaðurinn er úrskurðaður í eins leiks bann. Aganefnd vekur jafnframt athygli á stighækkandi áhrifum leikbanna, skv. 1. mgr. 11. gr. sömu reglugerðar
Fleiri mál lágu ekki fyrir.
Úrskurðinn kváðu upp Sverrir Pálmason, Arnar Kormákur Friðriksson og Arnar Þór Sæþórsson.