Úrskurður aganefndar 16. apríl 2019

Eftirtalin mál lágu fyrir og voru tekin til úrskurðar:

1.
Aganefnd hefur borist erindi frá framkvæmdastjóra HSÍ vegna leikbrots Bjarna Ófeigs Valdimarssonar leikmanns FH sem kom upp í leik FH og Akureyrar í mfl. ka. þann 3.4.2019. Í samræmi við 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál var FH gefinn kostur á að skila inn skriflegri greinargerð. Greinargerð hefur borist frá FH. Samkvæmt 18. gr. reglugerðar HSÍ um agamál er stjórn eða framkvæmdastjóra HSÍ heimilt að vísa til aganefndar atvikum, s.s. leikbrotum, sem skaðað geta ímynd handknattleiksíþróttarinnar og ekki hafa komið fram í atvikaskýrslu dómara eða eftirlitsmanns. Um getur verið að ræða hvers kyns ósæmilega framkomu innan eða utan leiks eða á annan hátt opinberlega. Aganefnd hefur farið yfir myndbandsupptöku af umræddu leikbroti, sem fyrir liggur að dómarar leiksins sáu ekki. Það er mat nefndarinnar að umrætt leikbrot hefði að öllum líkindum valdið útilokun leikmanns ef dómarar leiksins hefðu séð atvikið.  Hér kemur hins vegar fyrst og fremst til skoðunar af hálfu nefndarinnar hvort umrætt atvik feli í sér ósæmilega framkomu af hálfu viðkomandi leikmanns sem er til þess fallin að skaða ímynd handknattleiksíþróttarinnar. Að mati nefndarinnar er það skilyrði ekki uppfyllt í þessu tilfelli. Þegar af þeirri ástæðu bresta skilyrði nefndarinnar til að aðhafast vegna málsins.

2.
Viktor Sigurðsson leikmaður ÍR hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik ÍR og FH í 3. fl. ka. þann 9.4. 2019. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 b. Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar. 

Fleiri mál lágu ekki fyrir.

Úrskurðinn kváðu upp Sverrir Pálmason, Arnar Kormákur Friðriksson og Arnar Þór Sæþórsson.