Úrskurður aganefndar 14. maí 2019
Eftirtalin mál lágu fyrir og voru tekin til úrskurðar:
1.
Í skýrslu eftirlitsmanns eftir leik Vals og Fjölnis/Fylkis í 3. fl. ka. þann 5.5. 2019 kemur fram að upp hafi komið atvik milli þjálfara Vals, Heimis Ríkarðssonar, og eftirlitsmanns HSÍ eftir að leik lauk. Í ljósi atvika málsins taldi aganefnd rétt að leita umsagnar Vals um atvikið áður en úrskurðað yrði í málinu. Hefur slík greinargerð borist vegna málsins. Með hliðsjón af atvikum telur aganefnd ekki tilefni til að aðhafast frekar vegna málsins.
2.
Í skýrslu eftirlitsmanns eftir leik Vals og Fjölnis/Fylkis í 3.fl.ka. þann 5.5. 2019 kemur fram að upp hafi komið atvik milli forystumanns Vals og eftirlitsmanns HSÍ eftir að leik lauk. Með vísan til 4. mgr. 17. gr. reglugerðarinnar óskaði aganefnd umsagnar Vals áður en úrskurðað yrði í málinu. Hefur slík greinagerð borist vegna málsins. Aganefnd telur umrætt atvik réttilega heimfært undir 17. gr. reglugerðar HSÍ um agamál og að skilyrði ákvæðisins fyrir beitingu sektargreiðslu séu fyrir hendi. Með hliðsjón af atvikum er það úrskurður aganefndar að Valur skuli sæta sektargreiðslu að fjárhæð kr. 25.000,- Við ákvörðun um sektarfjárhæð var tekið mið af atvikum í heild sinni, þ.m.t. viðbrögðum aðila í framhaldi umrædds atviks.
3.
Kristófer Andri Daðason leikmaður Víkings hlaut útilokun með skýrslu vegna grófs leikbrots í leik Víkings og HK í mfl. ka. þann 10.5.2019. Dómarar meta að brotið falli undir reglu 8:5 c. Með tilvísun í 10. grein reglugerðar HSÍ um agamál er það niðurstaða aganefndar að ekki skuli aðhafst frekar vegna málsins en vakin er þó athygli á stighækkandi áhrifum útlokana vegna slíkra brota, skv. 2. mgr. 11. sömu reglugerðar.
Fleiri mál lágu ekki fyrir.
Úrskurðinn kváðu upp Sverrir Pálmason, Arnar Kormákur Friðriksson og Arnar Þór Sæþórsson.