Breytingar verða á starfsliði A landsliðs kvenna eftir að liðið kemur heim frá Danmörku í júní, Jónatan Magnússon mun láta af störfum sem aðstoðarlandsliðsþjálfari að eigin ósk og mun Elías Már Halldórsson taka við af honum og verða Axel Stefánssyni innan handar.
Um brotthvarfið hafði Jónatan þetta að segja:
“Eftir tvö ár sem aðstoðarlandsliðsþjálfari hef ég tekið þá ákvörðun að hleypa öðrum að. Það er mikið að gera á Akureyri í starfi yfirþjálfara yngri flokka KA og sem þjálfari kvennaliðs KA/Þórs og mat ég það svo að það tæki of mikinn tíma að sinna einnig landsliðinu. Þetta er búið að vera flottur tími með Axel, Obbu, starfsliðinu og að sjálfsögðu stelpunum líka. Ég tel liðið vera á réttri braut og sjálfur hef ég lært mikið á leiðinni og vonandi miðlað einhverju inn í verkefnið. Ég vil að lokum óska landsliðinu og þjálfarateyminu alls hins besta og hlakka til að fylgjast með því í framtíðinni. Áfram Ísland!”
Axel Stefánsson vildi koma á framfæri þakklæti til Jónatans:
“Samstarf okkar Jonna hefur gengið afskaplega vel. Hann hefur komið inn með mikla þekkingu, reynslu, orku og jákvæðni sem hefur spilað stórt hlutverk í að byggja upp sterka liðsheild og hjálpað bæði liðinu og einstaklingum að taka framfarir. Ég vil óska Jonna áfram velfarnaðar í því góða starfi sem hann kemur að á Akureyri”.
Elías Már muna þjálfa kvennalið Hauka samhliða því að takast á við þessa nýju áskorun:
“Ég er stoltur að fá þetta tækifæri og vil þakka Haukum sérstaklega fyrir að leyfa mér að stíga inn í þetta spennandi verkefni. Ég hlakka til að hitta starfsliðið, stelpurnar og að verða hluti af því frábæra starfi sem er í kringum kvennalandsliðið”.
Næsta verkefni A landsliðs kvenna eru tveir leikir í undankeppni EM, gegn Tékkum í Laugardalshöll miðvikudaginn 30.maí kl. 19.30 og gegn Dönum í Herning 2. júní. Að lokinni undankeppninni leikur íslenska liðið tvo vináttulandsleiki gegn Japan 4. og 5. júní. Leikirnir fara fram í Svendborg í Danmörku.
Miðasala fyrir leik Íslands og Tékklands er hafin á Tix.is.
Um leið og HSÍ þakkar Jónatan kærlega fyrir vel unnin störf bjóðum við Elías velkominn til starfa.
ÁFRAM ÍSLAND!
Elías Már Halldórsson, verðandi aðstoðarlandsliðsþjálfari kvenna. Mynd/HSÍ