Stelpurnar okkar ætluðu sér sigur á heimavelli í kvöld gegn Tékkum og það var eftirvænting í loftinu þegar flautað var til leiks í Laugardalshöll. Fljótlega varð þó ljóst að gestirnir ætluðu ekki að bjóða upp á neina veislu fyrir heimamenn því þær tékknesku sýndu allar sínar bestu hliðar á meðan ekkert gekk hjá stelpunum okkar, hvorki varnarlega né sóknarlega og staðan eftir 20 mínútur orðin 3-10 fyrir Tékklandi. Stelpurnar okkar náðu þó að vakna til lífsins áður en flautað var til hálfleiks og staðan í hlé 9-14 Tékkum í vil.
Í þeim síðari sýndi íslenska liðið að það býr heilmikill karakter í liðinu þar sem það náði í tvígang að minnka muninn niður í tvö mörk og einu sinni niður í aðeins eitt mark. En því miður náðu þær ekki lengra að þessu sinni þrátt fyrir hetjulega baráttu og lokatölur 24-26 fyrir Tékkland.
Þar með er ljóst að Ísland verður ekki á meðal þátttökuþjóða í lokakeppni í EM í Frakklandi í desember. Það verður þó að geta þess að liðið hefur tekið miklum framförum á tímabilinu og mikill stígandi í leik liðsins sem er ungt og efnilegt.
Stelpurnar okkar leika síðasta leikinn í undankeppninni gegn Danmörku á laugardag
og verður hann í beinni á RÚV kl. 14.10.
Síðasti heimaleikur tímabilsins er framundan. Úrslitaleikur um laust sæti á HM 2019 hjá strákunum okkar gegn Litháen miðvikudaginn 13. júní í Laugardalshöll kl. 19.30. Fyllum Höllina og styðjum strákana okkar inn á heimsmeistaramótið sem fram fer í Þýskalandi og Danmörku í janúar.
ÁFRAM ÍSLAND