A landslið kvenna | Ferðadagur til Kastamonu
Stelpurnar okkar tóku daginn snemma í Istanbul í dag og var stefnan sett á borgina Kastamonu þar sem leikur þeirra gegn Tyrkjum fer fram nk. miðvikudaginn. Um 90 mínútna seinkun var á fluginu hjá liðinu en hópurinn skilaði sér á hótelið um klukkan 14:00 að staðartíma.
Eftir að hafa komið sér fyrir á hótelinu og náð úr sér ferðaþreytunni með aðstoð þeirra Tinnu Jökulsdóttur og Jóhönnu Gylfadóttur sjúkraþjálfara liðsins var haldið á æfingu í keppnishöllinni. Kastamonu Merkez Sport Hall er heimavöllur Kastamonu Belediyesi GSK sem er gríðarlega sterkt lið í Evrópskum handbolta og spilar liðið m.a. í Meistaradeild Evrópu. Höllin er hin glæsilegasta og rúmar 3000 áhorfendur í sæti. Búist er við 2500-3000 manns á leikinn enda handbolti mjög vinsæll í bænum.
Í kvöld fundaði svo Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari með liðinu þar sem hann fór yfir áherslur liðsins fyrir leikinn.
Frekari fréttir og viðtöl við leikmenn og þjálfara liðsins munu birtast á vefmiðlum HSÍ á morgun.
Ísland mætir Tyrklandi á miðvikudaginn 2. mars í Kastamonu og á Ásvöllum sunnudaginn 6. mars. Olís ætlar að bjóða frítt á leikinn hér heima.