Í dag mættu strákarnir okkar liði Svía í Brinova Arena í Karlskrona, leikurinn er liður í undirbúningi beggja liða fyrir EM 2020 sem fram fer í janúar nk.
Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik í dag og skiptust liðin á að hafa forustu. Ólafur Guðmundsson jafnaði metinn á lokasekúndu fyrri hálfleiks með góðu skoti utan af velli og staðan því 18 – 18.
Svíar komu sterkari til leiks í seinni hálfleik og komust þeir í 26 – 22 þegar um fimmtán mínútur voru til leiksloka. Svíarnir tryggðu sér góðan fjögurra marka sigur í dag með 35 – 31 sigri á strákunum okkar.
Mörk Íslands í dag skoruðu Aron Pálmarsson 6 mörk, Ólafur Guðmundsson 4, Elvar Örn Jónsson 3, Bjarki Már Elísson 3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 3, Haukur Þrastarson 3, Kári Kristján Kristjánsson 3, Kristján Örn Kristjánsson 2, Viggó Kristjánsson 2, Sigvaldi Guðjónsson 1 og Elliði Snær Viðarsson 1 mark.
Ágúst Elí Björgvinsson varði 5 skot og Viktor Gísli Hallgrímsson varði 4 skot.