Ísland og Frakkland mættust í frábærum handboltaleik fyrr í kvöld. Franska liðið var taplaust á mótinu fyrir leikinn en strákarnir okkar mættu dýrvitlausir til leik og sýndu sitt rétta andlit eftir tapið gegn Sviss.
Mikill hraði var í upphafi leiksins og skiptust liðin á að skora eftir hraðaupphlaup eða hraðar miðjur, Frakkar höfðu þó forskotið en strákarnir okkar voru skammt undan. Frakkarnir áttu lokamarkið í fyrri hálfleik rétt í þann mund sem flautan gall, staðan í hálfleik 16-14 í hörkuleik.
Strákarnir okkar voru þó hvergi nærri hættir og komust m.a. 2 mörkum yfir 22-20 þegar 20 mínútur voru eftir. En þá kom hik á sóknarleikinn og Frakkar skoruðu 3 mörk í röð, Ólafur Guðmundsson jafnaði á nýjan leik og staðan 23-23 og aðeins 10 mínútur eftir. En reynsla Frakkanna kom í ljós á lokakaflanum og að lokum lönduðu þeir tveggja marka sigri, 26-28. Strákarnir okkar eiga þó hrós skilið, baráttan og gleðin var til fyrirmyndar og augljóst að íslenska liðið lagði allt sitt í leikinn.
Markaskorarar Íslands:
Bjarki Már Elísson 9, Viggó Kristjánsson 7, Sigvaldi Björn Guðjónsson 4, Ólafur Guðmundsson 3, Gísli Þorgeir Kristjánsson 2, Elvar Örn Jónsson 1.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði 10 skot í leiknum og Björgvin Páll Gústavsson varði 3 skot.
Bjarki Már Elísson var valinn maður leiksins.
Næsti leikur strákanna okkar er gegn Norðmönnum á sunnudaginn kl. 17.00, leikur verður sýndur í beinni útsendingu á RÚV.