A landslið karla | Sigur gegn Austurríki
Strákarnir okkar mættu Austurríki í Bregenz fyrr í dag, þar var um að ræða fyrri leik liðanna í umspili um laust sæti HM 2023.
Íslenska liðið náði frumkvæðinu strax í byrjun og leiddi með 1-2 mörkum fyrstu 20 mínútur leiksins. Þá tók við góður kafli íslenska liðsins sem komst mest 6 mörkum yfir í fyrri hálfleik en 5 mörkum munaði á liðunum í hálfleik, staðan 18-13 eftir 30 mínútur.
Jafnræði var með liðunum í upphafi síðari hálfleik en íslenska liðið náði mest 7 marka forystu áður austurríska liðið hóf að minnka muninn. Minnstur var munurinn 1 mark þegar 8 mínútur lifðu leiks en til allrar hamingju náðu strákarnir okkar vopnum sínum aftur og skiluðu 4 marka sigri, lokatölur 34-30 í Austurríki í dag.
Markaskorar Íslands:
Bjarki Már Elísson 11, Óðinn Þór Ríkharðsson 7, Aron Pálmarsson 4, Gísli Þorgeir Kristjánsson 4, Ómar Ingi Magnússon 3, Elvar Örn Jónsson 1, Elvar Ásgeirsson 1, Ýmir Örn Gíslason 1, Elliði Snær Viðarsson 1 og Janus Daði Smárason 1.
Björgvin Páll Gústavsson varði 7 skot og Viktor Gísli Hallgrímsson varði 2.
Liðin mætast á nýjan leik á laugardag kl. 16.00 að Ásvöllum í Hafnarfirði, uppselt er á leikinn en við minnum á beina útsendingu á RÚV.
ÁFRAM ÍSLAND!
Ljósmynd: Hafliði Breiðfjörð