Ísland tapaði fyrir Þýskalandi 26-25 í vináttulandsleik í Kassel í dag. Var þetta fyrri leikurinn af tveimur en liðin mætast aftur á morgun kl.14.00 í Hannover.
Þjóðverjar voru sterkari aðilinn í leiknum framan af og var staðan í hálfleik 15-13 þeim í vil. Leikurinn var í jafnvægi í síðari hálfleik en íslenska liðið fór að sækja á undir lokin og komst yfir 24-23 þegar um 6 mínútur voru eftir.
Þjóðverjarnir reyndust þó sterkari á lokakaflanum og lönduðu naumum sigri.
Aron Pálmarsson var markahæstur hjá Íslandi með 8 mörk og Alexander Pettersson skoraði 5.