Lokaleikur íslenska landsliðsins í riðlakeppni Evrópumótsins verður á morgun gegn Ungverjum. Að vanda fer viðureignin fram í Malmö Arena þar sem flautað verður til leiks klukkan 17.15 að íslenskum tíma.

Ungverjar hafa leikið betur í keppninni til þessa en margir reiknuðu með. Þeir unnu Rússa í upphafsleik sínum á laugardaginn, 26:25, og gerðu síðan jafntefli við Dani í gær, 24:24, þar sem þeir hefðu alveg eins getað farið með sigur úr býtum. Sjálfstraustið er sannarlega fyrir hendi.

Ungverjar geta með sigri eða jafntefli tryggt sér sæti í milliriðlakeppninni sem hefst á föstudag. Íslenska landsliðið er þegar öruggt um sæti í milliriðlum.

Leikurinn í dag snýst um það hvort strákarnir okkar farið með ekkert, eitt eða tvö stig á næsta stig keppninnar. Íslenskur sigur í leiknum gulltryggir liðinu tvö stig í nesti í milliriðil, hvort sem Danir eða Ungverjar fylgja íslenska liðinu eftir. Jafntefli þýðir að Ungverjar fylgja með í milliriðil. Hvort lið byrjar þá með eitt stig. Tvö stig eru afar mikilvæg, bæði fyrir framhaldið í keppninni og í kapphlaupinu um sæti í forkeppni Ólympíuleikanna en tvö sæti í þeirri keppni eru í boði fyrir lið frá Evrópumótinu.

Nánar verður vikið að forkeppninni í grein sem birtist hér á síðunni þegar fyrir liggur hvaða lið fara í kapphlaupið um sæti í Ólympíuforkeppninni þegar riðlakeppninni verður lokið.

„Ég lít á leikinn sem þann fyrsta í milliriðlum,” sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari á blaðamannafundi í dag og undirstrikaði þar með mikilvægi leiksins fyrir íslenska landsliðið. „Við ætlum okkur að fara með tvö stig inn í milliriðlakeppnina og þess vegna leikum við upp á sigur.

Sem fyrri segir hafa Ungverjar komið ýmsum á óvart á EM fram til þessa. Þeir hafa á að skipa blöndu yngri og eldri leikmanna, ekki ósvipað því íslenska. Góð stemning er innan hópsins og sigurvilji.

„Ungverjar eru með frábært lið um þessar mundir og víst er að við verðum að fara í leikinn af fullum krafti til þess að vinna. Þeir leika fjölbreyttan og góðan sóknarleik og áttu frábæran leik gegn Dönum í gærkvöld,” sagði Guðmundur ennfremur.

Ungverjar hafa á að skipa hávöxnum leikmönnum. Þeir léku þrjár útgáfur af varnarleik gegn Dönum, 6/0, 5/1 og einnig 4/2 þar sem þeir sendu tvo leikmenn út á móti miðjumanni og vinstri skyttunni. Sú vörn kom Dönum í opna skjöldu í leiknum enda nokkuð sem fróðustu menn um ungverska liðið segja þeir hafi ekki gert mikið af því að leika með tvo varnarmenn svo framarlega. Danska liðið svaraði með því að taka markvörð sinn af leikvelli meðan þeir það sótti til þess að eiga þess kost að tefla fram sjöunda sóknarmanninum. Líklegt má telja að Ungverjar reyni alla þessa þrjá varnarkosti gegn íslenska liðinu í dag.

Ungverjar hafa oft reynst strákunum okkar erfiðir. Leikir liðanna hafa oftar en ekki verið jafnir og spennandi. Margir muna e.t.v. eftir tvíframlengdum leik á Ólympíuleikunum í London árið 2012.

Leikurinn hefst klukkan 17.15 og verður að vanda sýndur í beinni útsendingu hjá RÚV. HBstatz verður með allar tölfræði á hreinu í rauntíma á meðan leikurinn fer fram. Einnig verður blaðamaður Vísis, sem er staddur í Malmö-Arena, með textalýsingu beint úr höllinni.



#
handbolti

 


#
strakarnirokkar

 


#
EURO2020

 


#
dreamwinremember