Strákarnir okkar mættu heimamönnum í fyrsta leik liðsins á Golden League mótinu í Noregi. Var þetta jafnframt fyrsti leikur Guðmundar með liðið frá því hann tók við liðinu í þriðja sinn eins og margoft hefur komið fram.
Strákarnir mættu einbeittir til leiks og var greinilegt að þeir ætluðu að selja sig dýrt og voru klárir í að sýna sig og sanna fyrir nýjum landsliðsþjálfara. Það má með sanni segja að ungu strákarnir hafi náð að standa undir nafni og gáfu Guðmundi margt til að hugsa um fyrir komandi leiki í framtíðinni. Margt jákvætt í leik liðsins og fyrsti leikur undir stjórn Guðmundar lofar góðu.
Nokkuð jafnræði var á meðal liðanna í leiknum þó heimamenn væru ögn sterkari heilt yfir í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléi 14-13 eftir jafnan og skemmtilegan leik. Í seinni hálfleik var meira af því sama, heimamenn héldu frumkvæðinu en íslenska liðið missti þá aldrei of langt frá sér og var allt í járnum allt þar til Norðmenn náðu þriggja marka forystu þegar 12 mínútur voru eftir. Það var of stór munur að brúa fyrir strákana okkar þó þeir hafi komist nálægt því, lokatölur 31-29 Noreg í vil.
Markaskorar og varðir boltar:
Arnór Þór Gunnarsson 8,
Ómar Ingi Magnússon 4,
Aron Pálmarsson 3,
Arnar Freyr Arnarsson 3,
Haukur Þrastarson 3,
Vignir Svavarsson 2,
Ragnar Jóhannsson 2,
Elvar Örn Jónsson 2,
Stefán Rafn Sigurmannsson 1,
Daníel Þór Ingason 1.
Björgvin Páll Gústavsson varði 15 bolta.