Ágúst Elí Björgvinsson
Ágúst Elí er 24 ára gamall markvörður sænska meistaraliðsins Sävehöf. Hann tók fyrst þátt í stórmóti með A-landsliðinu á EM í Króatíu 2018. Alls á Ágúst Elí að baki 31 A-landsleiki og var annar tveggja markvarða landsliðsins á HM í Þýskalandi fyrir ári.
Sinn fyrsta A-landsleik lék Ágúst Elí gegn Noregi í Elverum 8. júní 2017.
Ágúst Elí gekk til liðs við sænska liðið sumarið 2018 eftir að hafa leikið með FH upp alla yngri flokka og upp í meistaraflokk. Hann var í silfurliði FH á Íslandsmótinu 2017 og 2018 og varð deildarmeistari Olís-deildinni með Hafnarfjarðarliðinu árið 2017.
Ágúst Elí varð nokkuð óvænt sænskur meistari með Sävehöf á síðasta vori eftir ævintýralegt gengi í úrslitakeppninni. Hann hefur þar af leiðandi leikið með Sävehof í Meistaradeild Evrópu á þessari leiktíð og fyrir vikið öðlast enn meiri alþjóðlega reynslu. Nýverið var tilkynnt að Ágúst Elí yfirgefi Sävehof að loknu yfirstandandi keppnistímabili og rói á önnur mið.
Afi Ágústs Elís, móður faðir, var Birgir Björnsson sem lék með íslenska landsliðinu á HM 1958, 1961 og 1964 og var landsliðsþjálfari á HM 1978.
Björgvin Páll Gústavsson, markvörður
Björgvin Páll er 34 ára gamall markvörður danska úrvalsdeildarliðsins Skjern. Hann hefur tekið þátt í öllum stórmótum íslenska landsliðsins frá Ólympíuleikunum í Peking 2008, alls 12. Fyrir vikið er hann einn reynslumesti leikmaður liðsins um þessar mundir.
Björgvin Páll hefur leikið 221 landsleik og skorað í þeim 13 mörk. Þar af eru 27 leikir og eitt mark í fimm lokakeppnum EM. Eina EM-mark sitt til þessa skoraði Björgvin Páll í leik við Króata á EM í Póllandi fyrir fjórum árum.
Björgvin Páll var í silfurliði Íslands á Ólympíuleikunum 2008 og bronsliðinu á EM 2010.
Sinn fyrsta A-landsleik lék Björgvin Páll gegn Ungverjum í Ózd 27.október árið 2006.
Björgvin Páll er fæddur á Hvammstanga en hóf handknattleiksferil sinn með HK hvar hann lék til ársins 2005, þó með skammtíma stans hjá Víkingi í yngri flokkum. Hann með meistaraflokki HK fram til sumarsins 2005 að hann skipti yfir til ÍBV. Í Eyjum var Björgvin Páll eina leiktíð uns hann gerðist liðsmaður Fram sumarið 2006 og var þar í tvö keppnistímabil. Sumarið 2008 hleypti Björgvin Páll heimdraganum og lék með þýska liðinu TV Bittenfeld 2008-2009, Kadetten Schaffhausen í Sviss frá 2009-2011, SC Magdeburg í Þýskalandi 2011-2013 og Bergischer HC í fjögur ár þar á eftir, 2013 til 2017. Þá flutti hann heim og lék með Haukum leiktíðina 2017 til 2018 en fór um sumarið til Skjern í Danmörku. Á dögunum skrifaði Björgvin Páll að nýju undir samning við Hauka sem tekur gildi í sumar.
Björgvin Páll varð svissneskur meistari með Kadetten Schaffhausen.
Fyrir jólin gaf Björgvin Páll út bók um lífshlaup sitt í samvinnu við Sölva Tryggvason, Án filters.
Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður
Viktor Gísli er 19 ára gamall markvörður danska úrvalsdeildarliðsins GOG á Fjóni í Danmörku. Hann er næst yngsti leikmaður landsliðsins um þessar mundir og er annar tveggja í hópnum sem er fæddur er á 21.öldinni. Viktor Gísli er hávaxnasti leikmaður hópsins, 203 sentímetrar. Viktor Gísli hefur aldrei tekið þátt í stórmóti með A-landsliðinu en var í úrtakshópnum fyrir HM í Þýskalandi fyrir ári síðan. Hann á að baki 9 A-landsleiki.
Fyrsta A-landsleik sinn lék Viktor Gísli gegn Noregi í Sotra Arena í nágrenni Bergen 5. apríl 2018. Viktor Gísli hefur leikið með öllum yngri landsliðum Íslands og var m.a. Í silfurliði Íslands á EM U18 ára í Króatíu sumarið 2018.
Viktor Gísli lék upp yngri flokka Fram og komst fyrst í meistaraflokk 2016. Hann vakti strax athygli fyrir frammistöðu sína og var m.a. valinn efnilegasti markvörður Olís-deildarinnar 2017. Hann gekk til liðs við GOG sumarið 2019 og hefur leikið stöðugt með liðinu í dönsku úrvalsdeildinni og Meistaradeild Evrópu allt þetta keppnistímabil og öðlast kærkomna reynslu.