Á næstu dögum birtum við á samfélagsmiðlum HSÍ og hér á heimasíðunni kynningu á leikmönnum Íslands í 19 manna hópi Íslands fyrir EM 2020. Í dag kynnum við þá leikmenn sem eru hægri skyttur landsliðsins.
Alexander Petersson, hægri skytta
Alexander er 39 ára gamall og gefur nú kost á sér í íslenska landsliðið á nýjan leik eftir fjögurra ára fjarveru. Alexander er fæddur í Ríga í Lettlandi 2. júlí 1980. Hann kom til Íslands 1998 í þeim tilgangi að æfa og leika með GróttuKR. Hann settist hér að og lék með GróttuKR fram til ársins 2003. Sama ár fékk Alexander íslenskan ríkisborgararétt og varð gjaldgengur með íslenska landsliðinu tveimur árum síðar. Ástæðan fyrir biðinni var sú að hann hafði leikið fyrir landslið Lettlands.
Um leið og Alexander varð gjaldgengur með íslenska landsliðinu gaf hann kost á sér. Fyrsti leikur hans með landsliðinu var gegn sænska landsliðinu í Borås í Svíþjóð gegn sænska landsliðinu 5. janúar 2005. Hans fyrsta stórmót var HM í Túnis 2005. Síðan er stórmótin orðin 11, þar af fimm Evrópumót sem hann hefur skoraði í 87 mörk í 27 leikjum. Alls á Alexander 174 landsleiki að baki. Landsliðsmörkin eru 696.
Alexander gekk til liðs við Düsseldorf 2003 og hefur síðan leikið með þýsku félagsliðum í efstu deild. Hann var hjá Grosswallstadt 2005 til 2007, Flensburg 2007 til 2010 og hjá Füchse Berlin 2010 til 2012. Frá 2012 hefur Alexander leikið með Rhein-Neckar Löwen. Með RN-Löwen varð Alexander þýskur meistari 2016 og 2017, bikarmeistari 2018 og EHF-bikarmeistari 2013.
Alexander var kjörinn íþróttmaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna fyrir árið 2010. Hann var valinn besti sóknarmaður Íslandsmótins 2003.
Alexander vann til silfurverðlauna með íslenska landsliðinu á Ólympíuleikunum í Peking árið 2008 og til bronsverðlauna á Evrópumótinu í Austurríki árið tveimur árum síðar.
Eiginkona Alexander, Eivor Pála Blöndal, á að baki 13 A-landsleiki í handknattleik. Sonur þeirra, Lúkas Jóhannes lék með U17 ára landsliði Íslands í knattspyrnu á síðasta sumri.
Viggó Kristjánsson, hægri skytta
Viggó er 26 ára gamall Seltirningur og örvhent skytta sem lék sinn fyrsta A-landsleik 25. október sl. gegn Svíum. Síðan hefur hann bætt tveimur leikjum við í safnið. Viggó er á leiðinni á sitt fyrsta stórmót með landsliðinu.
Viggó var í yngri flokkum Gróttu og upp í meistaraflokk. Hann lagði um skeið megináherslu á knattspyrnu og lék m.a. með Breiðabliki í efstu deild sumarið 2013 og ÍR sumarið á undan í næst efstu deild. Viggó gekk á ný til liðs við Gróttu fyrir leiktíðina sumarið 2014 en það eftir hann vatt hann kvæði sínu í kross og lagði stund á handknattleik af krafti eftir það. Hann hann æfði bæði handknattleik og knattspyrnu á unglingsárum og var m.a. í U17 ára landsliðinu í handknattleik sem tók þátt í Ólympíuhátið Evrópuæskunnar.
Viggó lék stórt hlutverk í meistaraflokki Gróttu í handknattleik þegar liðið vann sig upp í Olís-deildina vorið 2015 og var næst markahæsti leikmaður Gróttu í deildinni keppnistímabilið 2015 til 16. Sumarið 2016 gekk Viggó til liðs við danska handknattleiksliðið Randers. Að lokinni eins árs dvöl á Jótlandi samdi Viggó við austurríska 1. deildarliðið West Wien sem þá var undir stjórn Hannesar Jóns Jónssonar, fyrrverandi landsliðsmanns. Hjá West Wien var Viggó í tvö keppnistímabil og var markahæsti leikmaður liðsins.
Viggó flutti til Þýskalands á síðasta sumri og samdi við SC DHfK Leipzig. Vera Viggós hjá liðinu var styttri en vonir stóðu til því hann var seldur til Wetzlar í nóvember þegar liðinu vantaði örvhenta skyttu. Skrifaði hann undir samning við Wetzlar til loka leiktíðar í vor en þá gengur Viggó til liðs við TVB Stuttgart.