Íslenska landsliðið í handknattleik karla tapaði með átta marka mun, 33:25, fyrir þýska landsliðinu í vináttuleik þjóðanna í SAP-Arena í Mannheim í kvöld. Þýska liðið var þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 16:13.
Þjóðverjar lögðu grunn að sigri sínum með góðum upphafskafla í síðari hálfleik þegar þeir skoruðu fjögur fyrstu mörkin og náðu sjö marka forskoti. Fyrri hálfleikur var jafn og náði íslenska liðið yfirhöndinni í skamman tíma. Þýska liðið var hinsvegar sterkara í síðari hálfleik.
Þetta var eini vináttuleikur íslenska liðsins áður en það tekur þátt í Evrópumeistaramótinu en fyrsti leikur þess á EM2020 verður við Dani á laugardaginn eftir viku í Malmö.
Mörk Íslands:
Arnór Þór Gunnarsson 4, Guðjón Valur Sigurðsson 4, Janus Daði Smárason 4, Alexander Petersson 2, Arnar Freyr Arnarsson 2, Ólafur Andrés Guðmundsson 2, Sigvaldi Björn Guðjónsson 2, Bjarki Már Elísson 1, Elvar Örn Jónsson 1, Haukur Þrastarson 1, Viggó Kristjánsson 1, Kári Kristján Kristjánsson 1.
Björgvin Páll Gústavsson lék í markinu og varði 5 skot. Viktor Gísli Hallgrímsson stóð á milli stanganna í síðari hálfleik og varði 6 skot.
Elvar Örn Jónsson meiddist á ökkla á upphafsmínútum leiksins í dag og kom eftir það ekkert við sögu. Aron Pálmarsson og Daníel Þór Ingason léku ekki með vegna meiðsla.
Íslenska landsliðið er væntanlegt heim á morgun þar sem það verður við æfingar þar til haldið verður til Malmö á fimmtudaginn.