Strákarnir okkar léku í kvöld sinn fyrsta leik í undankeppni EM 2022 gegn Litháen, leikurinn fór fram í Laugardalshöll án áhorfenda. Það var ljóst frá fyrstu mínútu að þeir ætluðu sér sigur enda sáu Litháar vart til sólar í leiknum.
Vörnin var sterkt í fyrri hálfleik, Hákon Daði Styrmisson naut góðs af því og raðaði inn mörkum í hraðaupphlaupum. Sóknarleikurinn var líka vel smurður og strax í fyrri hálfleik voru fjölmargir leikmenn komnir á blað. Staðan í hálfleik 19:10 og í raun ljós hvert stefndi.
Sigurinn var aldrei í hættu í síðari hálfleik, strákarnir okkar bættu áfram í forskotið og í lokin vannst sannfærandi 16 marka sigur, 36:20.
Markaskorarar Íslands:
Hákon Daði Styrmisson 8 mörk, Arnór Þór Gunnarsson 5, Elvar Örn Jónsson 5, Viggó Kristjánsson 4, Aron Pálmarsson 3, Óðinn Þór Ríkharðsson 2, Janus Daði Smárason 2, Ýmir Örn Gíslason 2, Arnar Freyr Arnarsson 2, Gísli Þorgeir Kristjánsson 1, Orri Freyr Þorkelsson 1 og Magnús Óli Magnússon 1.
Viktor Gísli Hallgrímsson varði 11 skot og Björgvin Páll Gústavsson varði 4 skot.