A kvenna | Lærdómsríkt stórmót að baki
A landslið kvenna skilaði sér heim til Íslands með Icelandair s.l. föstudag en þá hafði liðið verið saman í Noregi og Danmörku frá 22. nóvember.
Að baki er fyrsta stórmót stelpnanna okkar frá árinu 2012.
1. nóvember tilkynnti Arnar Pétursson, landsliðsþjálfari hvaða 18 leikmenn hann tæki með á HM. Ljóst var að leikmenn voru að fá eldskírn sína á mótinu því einungis tveir leikmenn þær Þórey Rósa Stefánsdóttir og Sunna Jónsdóttir höfðu áður leikið á stórmóti. Sex leikmenn í 18 manna leikmanni hópi Íslands léku utan Íslands en aðrir voru leikmenn frá íslenskum félagsliðum.
Landsliðið kom saman til æfinga hér heima mánudaginn 20. nóvember en ljóst var að einungis næði liðið tveimur æfingum saman áður en haldið yrði til Noregs og því yrði undirbúningurinn hraður og krefjandi. Miðvikudaginn 22. nóvember hélt liðið til Lillehammer. Norska handknattleikssambandið bauð stelpunum okkar að taka þátt í Posten Cup. Þar léku þær gegn evrópu- og heimsmeisturum Noregs, Póllandi og Angóla. Þátttaka í Posten Cup gerði liðinu gott. Andinn í hópnum var frábær og mikil reynsla að fá að leika gegn Noregi á heimavelli fyrir framan 5000 áhorfendur.
Stelpurnar okkar færðu sig yfir til Stavanger 28. nóvember. Þar fór fram riðlakeppni HM þar sem liðið lék í D-riðli með Frakklandi, Slóveníu og Angóla. Um 200 áhorfendur studdu stelpurnar okkar dyggilega í leikjunum og fengu íslensku stuðningsmennirnir mikið hrós frá mótshöldurum. Fulltrúar fimm fjölmiðla fylgdu liðinu og viljum við þakka RÚV, handbolti.is, mbl.is, visir/Stöð2 og Kvennakastinu fyrir að fjalla fagmannlega og vel og leiki liðsins í riðlakeppninni.
Ljóst var að á brattann yrði að sækja í sterkum riðli og var talið fyrir fram að síðasti leikur riðilsins gegn Angóla myndi skera úr um hvort liðið færi áfram í milliriðil. Niðurstaðan var svekkjandi jafntefli og fór Angóla áfram á markatölu úr öðrum leikjum. Niðurstaðan var því þátttaka í Forsetabikarnum. Þess ber að geta að Frakkland sem lék einmitt með stelpunum í riðli enduðu sem heimsmeistarar eftir sigur á Noregi í úrslitaleik mótsins.
Forsetabikarinn var leikinn í Frederikshavn í Danmörku og voru mótherjar liðsins í riðlakeppni Forsetabikarsins Grænland, Kína og Paragvæ. Stelpurnar unnu alla leiki í riðlakeppninni og því ljóst að liðið myndi leika til úrslita gegn Kongó í úrslitaleiknum. Sigur vannst 30 – 28 og Ísland því handhafi Forsetabikars IHF fram að næsta HM sem haldið verður í Þýskalandi og Hollandi.
Ljóst er að liðið fékk mikla reynslu út úr þessu móti og framtíðin er björt hjá stelpunum okkar. Markmið liðisins er að tryggja sér þátttökurétt á EM 2024. Fyrir ungt lið að mæta Noregi og Frakklandi sem léku til úrslita á HM 2023 er mikilvægur skóli sem byggt verður á til framtíðar. Þjálfarateymið og starfsmenn liðsins hafa staðið sig frábærlega og vill HSÍ þakka þeim og leikmönnum liðsins kærlega fyrir handbolta veislu síðust þriggja vikna.