Stelpurnar okkar léku í kvöld sinn annan leik á EM í Austurríki, þegar þær mættu Úkraínu í Innsbruck. Eftir svekkjandi tveggja marka tap gegn Hollandi í fyrsta leik voru þær staðráðnar í að tryggja sér sigur í leik kvöldsins.

Ísland var sterkari aðilinn á vellinum frá fyrstu mínútu og naut góðs af kraftmiklum stuðningi íslenskra áhorfenda í stúkunni. Fyrri hálfleikur var glæsilegur, bæði í vörn og sókn, og staðan í leikhléi var 16–9 Íslandi í vil.

Úkraínska liðið kom sterkt til leiks í seinni hálfleik og tókst að minnka forskotið niður í þrjú mörk. Hins vegar komust þær ekki lengra gegn sterku og vel skipulögðu liði Íslands.

Ísland tryggði sér sögulegan fyrsta sigur sinn á EM kvenna með frábærri frammistöðu og þriggja marka sigri, 27–24. Þetta var stórkostlegt kvöld og nú bíður liðsins úrslitaleikur gegn Þýskalandi á þriðjudaginn, þar sem sæti í milliriðli er í húfi.

Mörk Íslands í kvöld:

Perla Ruth Albertsdóttir 6, Elín Klara Þorkelsdóttir 5, Andrea Jacobsen 4, Þórey Rósa Stefánsdóttir 3, Díana Dögg Magnúsdóttir 3, Elísa Elíasdóttir 2, Steinunn Björnsdóttir 2, Thea Imani Sturludóttir 1, Katrín Anna Ásmundsdóttir 1

Elín Jóna Þorsteinsdóttir varði 10 skot og Hafdís Renöturdóttir varði 4 skot