A karla | Sæti á EM 2026 staðreynd

Fjórði leikur Íslands í undankeppni EM 2026 fór fram í dag, þegar strákarnir okkar mættu Grikklandi í Laugardalshöll. Troðfull höll studdi vel við liðið, og strákarnir svöruðu með frábærum leik. Ísland komst í 6-0 forystu á fyrstu mínútum leiksins, en Grikkir gerðu sitt besta til að minnka muninn það sem eftir lifði af fyrri hálfleik. Þegar flautað var til hálfleiks leiddi Ísland með sjö marka forskoti, 16-9.

Yfirburðir Íslands voru algjörir í leiknum, og fengu allir leikmenn liðsins góðan spiltíma. Lokatölur urðu 33-21, tólf marka sigur fyrir Ísland, sem hefur þar með tryggt sér sæti á sínu fjórtánda Evrópumóti í röð.

Mörk Íslands í leiknum:
Janus Daði Smárason 4, Andri Már Rúnarsson 4, Sigvaldi Björn Guðjónsson 3, Orri Freyr Þorkelsson 3, Óðinn Þór Ríkharðsson 3, Stiven Tobar Valencia 3, Þorsteinn Leó Gunnarsson 3, Haukur Þrastarsson 2, Elliði Snær Viðarsson 2, Kristján Örn Kristjánsson 2, Einar Þorsteinn Ólafsson 1, Ýmir Örn Gíslason 1 og Arnór Snær Óskarsson 1 mark.

Björgvin Páll Gústavsson varði 14 skot og Ísak Steinssen 1 skot.