Tilkynnt verður um val á íþróttamanni ársins í kvöld en íþróttamaður ársins eru verðlaun sem Samtök íþróttafréttamanna veita árlega þeim íþróttamanni sem er talinn hafa skarað framúr og keppir innan vébanda ÍSÍ.
Tveir handknattleiksmenn eru á meðal þeirra tíu sem eru efstir í kjörinu að þessu sinni, Bjarki Már Elísson sem spilar fyrir Lemgo í Þýskalandi og Aron Pálmarsson sem spilar fyrir Barcelona á Spáni.
Bjarki átti frábært tímabil með Lemgo og varð markahæsti leikmaður þýsku deildarinnar, bestu deildar í heimi. Bjarki skoraði 216 mörk í 27 leikjum eða átta mörk að meðaltali í leik. Hann varð þriðji Íslendingurinn til að verða markakóngur á eftir þeim Sigurði Val Sveinssyni og Guðjóni Val Sigurðssyni. Bjarki hefur haldið uppteknum hætti og er þriðji markahæsti leikmaður deildarinnar á núverandi tímabili. Bjarki varð markahæsti leikmaður Íslands á EM í janúar ásamt þeim Aroni Pálmarssyni og Alexander Petersson en allir skoruðu þeir 23 mörk í sjö leikjum.
Aron varð þrefaldur meistari á Spáni á síðasta keppnistímabili með Barcelona auk þess sem Aron og liðsfélagar hans tryggðu sér sæti í úrslitahelgi Meistarardeildar Evrópu sem fram með nú milli jóla og nýárs. Aron átti stórkoslegan leik á EM þegar íslenska landsliðið vann Ólympíumeistara Dana en hann var með 10 mörk og 9 stoðsendingar í sigri á einu besta liði heims. Barcelona hefur haldið uppteknum hætti á þessu tímabili og er eina taplausa liðið í riðlakeppni Meistaradeildar í haust og í vetur.
Íþróttamaður ársins, þjálfari ársins og lið ársins – valin af Samtökum íþróttafréttamanna verða kynnt í beinni útsendingu á RÚV í kvöld. Útsendingin hefst klukkan 19:40.