HSÍ og félagsmálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason fyrir hönd félagsmálaráðuneytisins skrifuðu í vikunni undir samning sem felur það í sér að ráðneytið styrkir Breytum leiknum átaki HSÍ. HSÍ fór af stað með átakið Breytum leiknum í upphafi leiktíðar með það að markmiði að breyta gömlum og úreldum viðhorfum innan íþróttahreyfingarinnar gagnvart ungum stúlkum.
Markmið HSÍ felur einnig í sér að bæta ímynd kvennahandboltans og landsliðsins og fá fleiri ungar stelpur til þess að byrja að æfa handbolta og stunda íþróttina lengur. Tölfræðin sýnir að strax 14 ára gamlar eru stelpur tvisvar sinnum líklegri en strákar til að hætta í íþróttum og 17 ára gamlar eru helmingur stelpna hættar að æfa íþróttir. Tími barna í íþróttum er talinn vera 10 ár og 78% þeirra stelpna sem hætta segjast ekki sjá fyrir sér neina framtíð í íþróttinni eða telja sig ekki hafa verið nógu góðar. Þessu þurfum við að breyta.
Samfélagslegur ávinningur af aukinni þátttöku stelpna í íþróttum er mikill. Rannsóknir sýna að íþróttir ýta undir sterkari sjálfsímynd og eru mikilvæg forvörn gegn neyslu vímuefna. Jákvæð tengsl eru jafnframt á milli íþrótta og góðrar andlegrar heilsu, þær byggja upp aga og félagsfærni en nýlegar kannanir benda til þess að þar séu íslensk börn eftirbátar annarra.
Félagsmálaráðuneytið hefur með styrk sínum orðið einn af bakhjörlum átaksins ásamt Olís. Átakið byrjaði með myndbandi í sjónvarpi, á samfélagsmiðlum og auglýsingum á öðrum miðlum. Nýjasta myndband herferðarinnar fór birtingu í gær á samfélagsmiðlum.
HSÍ fagnar því að félagsmálaráðherra og hans ráðuneyti styrki Breytum leiknum átakið enda mikilvægt að við sameinumst öll í því að bæta ímynd kvennahandboltans á Íslandi.
Á heimasíðunni www.breytumleiknum.is er hægt finna frekari upplýsingar um átakið, fyrstu auglýsingu Breytum leiknum og æfingatíma aðildarfélaga HSÍ.